félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að því miður veit ég ekki svarið við spurningunni. Ég var þá ekki kominn inn í Öryrkjabandalagið eða Sjálfsbjörg eins og ég var seinna meir. Það sem ég man í þessu samhengi úr þessum nefndum er að munurinn á þessari nefnd og hinni nefndinni var þetta sem stóð til í Péturs Blöndals nefndinni, að fá hálfan lífeyri og fara svo að vinna eins og menn vildu.
Þá var engin endurhæfing inni í dæminu heldur áttu menn bara að vinna sína vinnu sem var auðvitað skelfilegt vegna þess að á þessum tíma hefði verið hreinn hryllingur að henda fólki á hálfar bætur. Því miður verður að segjast eins og er að þetta var barn síns tíma. Þetta voru því miður ekki gáfulegar tillögur. Það besta í þessari stöðu og það eina rétta hefði verið að gera bara nákvæmlega sama hlutinn gagnvart öryrkjum og gert var við eldri borgara. Auðvitað segir það sig sjálft að það er eiginlega óskiljanlegt í öllu samhenginu að það skuli vera komin tvö og hálft ár síðan eldri borgarar fengu krónu á móti krónu skerðinguna leiðrétta. Ríkið er búið að spara sér, samkvæmt tölum sem það gaf upp sjálft, nærri 30 milljarða og ætlar að setja 3 milljarða inn í þetta. Það er alveg til háborinnar skammar. Eins og við segjum eru öryrkjar á þeim kjörum að þeir geta ekki á nokkurn hátt neitað að taka við hvaða hungurlús sem er. Hver einasta króna, eins og ég hef áður sagt, skiptir máli, bara til þess að lifa af til loka mánaðarins. Það skiptir öllu máli.