149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einn af kostunum við núverandi kerfi er að þeir sem inn í það eru komnir búa við ákveðið öryggi. Fjárhæðin er ekki nógu há en það er ákveðið öryggi að maður er kominn í, ákveðið skjól innan kerfisins. Það hefur gríðarlega kosti. Gallinn við það kerfi er hins vegar sá að þar er ekki nógu mikill hvati til að taka þátt í samfélaginu.

Það er sérstaklega bagalegt þegar um er að ræða ungt fólk í blóma lífsins og væri betra fyrir það sjálft og samfélagið allt að það væri meiri og virkari þátttakendur í. Auðvitað gildir það um fólk á öllum aldri. Ég vil samt leggja sérstaka áherslu á unga fólkið í þessu og það er einmitt um það sem við höfum svo mikið verið að ræða núna í almannatrygginganefndinni, þ.e. hvernig við getum aukið virkni fólks en samt á þann hátt að það búi við fjárhagslegt öryggi.

Þar tel ég að aukin endurhæfing, þar sem fólk sem einhverra hluta vegna hefur þurft að fara út af vinnumarkaði, t.d. vegna veikinda, fær aðstoð við að byggja sig upp til að fara aftur út á vinnumarkaðinn, hvort sem það er í hlutastarf eða í fullt starf. Það er í þá átt sem við þurfum að fara með kerfið okkar, að hvetja fólk til virkni en standa vörð um öryggisnetið og framfærsluna, sér í lagi hjá þeim sem ekki geta tekið þátt á vinnumarkaði, og þeir verða alltaf einhverjir. Kerfið þarf því að gera hvort tveggja.