149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[14:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar rétt að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum þætti vegna þess að við erum að ganga í gegnum hugarfarsbreytingu varðandi það hvernig lög um persónuvernd líta út. Fyrstu viðbrögð, eins og þingmaðurinn lýsti svo ágætlega, eru þau að skriflegt samþykki sé einhvern veginn góður grundvöllur undir miðlun persónuupplýsinga einstaklings, þegar reyndin er sú að í mörgum tilvikum er ekki hægt að tala um óþvingað samþykki. Þegar miðlun upplýsinganna er nauðsynleg, til að t.d. fá greiddar bætur frá Sjúkratryggingum Íslands, er ekki hægt að segja að einstaklingur geti kvittað upp á eitthvað af fúsum og frjálsum vilja.

Mig langaði rétt að bæta hérna við, af því að mér heyrðist þingmaðurinn ekki nefna það, að það sem við setjum inn í lög á móti, af því að það þarf jafnvægi í þessi mál, er skylda stofnana til að upplýsa þegar upplýsingum er miðlað um einstaklinga. Annars vegar ætlum við að hætta að láta eins og skriflegt samþykki hafi eitthvert vægi þegar ekkert annað er í boði en að samþykkja, og hins vegar neyðum við stofnanir til að láta vita þegar þær miðla upplýsingum. Eins og fram kom er hér verið að innleiða nýja hugsun en jafnframt tryggari umgjörð utan um miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga.