149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Enn á ný hillir undir þinglok, vonandi, eða kannski verðum við hérna fram að jólum. Hver veit? Það eina sem ég veit er að hér er góður vilji stjórnarandstöðu til að semja um nánast hvaðeina en ég er náttúrlega ekki reynd á því sviði. Þetta er svolítið gaman, ég verð að viðurkenna það fyrir öllum sem ekki hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að vera alþingismenn og fylgjast með störfum þingsins, og verulega athyglinnar virði að fá að fylgjast með þessu. Það liggur fyrir 41 mál á dagskrá og ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til að taka utan um okkur, hina velviljuðu, samningsfúsu og frábæru stjórnarandstöðu, og gera okkur kleift að halda áfram að fylgja málunum okkar eftir. Til þess erum við hér.

Ég ætla að þessu sinni ekki að fara út í neitt fleira sem hefur komið mér á óvart síðan ég kom á Alþingi, samanber uppákomuna sem ég lenti í í gær. Ég geri það kannski seinna. En sem dæmi áttum við mál, Flokkur fólksins, frumvarp sem við höfum mælt fyrir tvisvar um að afnema skerðingar á launatekjur aldraðra. Það hefur verið einbeittur vilji að halda því algjörlega til hlés og koma því alls ekki í gegn þrátt fyrir að við séum búin að sýna fram á, bæði með skýrslum og gögnum frá Tryggingastofnun ríkisins og skýrslu unninni af stjórnsýslufræðingi, svart á hvítu að ríkissjóður myndi hreinlega hagnast á því, því lýðheilsumáli, að gefa þeim ákveðna þjóðfélagshópi kost á því að halda áfram að vinna ef hann treystir sér til.

Þess vegna segi ég: Á meðan verið er að tala um hallarekstur og niðursveiflu í hagkerfinu og við höfum ekki efni á hinu og höfum ekki efni á þessu og þurfum að sýna aðhald get ég ekki skilið af hverju getum við ekki gert góðverk þegar það kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu.