149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það eru nákvæmlega þessi orð sem komu frá ráðuneytinu, af því eins og ferlið virkar þá er það þannig að ef einhverjar reglur eru samþykktar í Evrópusambandinu um eitthvað sem varðar sameiginlega innri markaðinn, sem Ísland er á ásamt hinum EFTA-ríkjunum, fyrir utan Sviss, fer málið til Alþingis og til utanríkismálanefndar Alþingis. Þaðan fer það inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áður en það fer til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem sendir það síðan aftur til þingsins, þar sem við erum nú með þriðja orkupakkann til umræðu. Þetta gerist allt fyrst. Svo fer málið til stjórnskipulags- og eftirlitsnefndar og þar er spurt: Er stjórnskipulegur fyrirvari? Þá kemur svar frá ráðuneytinu, uppáskrifað: „Þetta hefur oft verið gert áður. Þetta er vel afmarkað og vel skýrt.“ En samt sem áður vorum við bara nú á dögunum að ræða mál í stjórnskipulags- og eftirlitsnefnd. Ég var sá eini sem vildi ekki skrifa undir álit til utanríkismálanefndar, forsætis- og utanríkisráðherra og síðan til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég sagði nei. Þó að þetta hafi verið gert áður og ráðuneytið segi að þetta sé vel afmarkað og vel skilgreint, þá erum við samt sem áður að fara að heimila núna að ESA geti sektað lögaðila á Íslandi. Það þarf ekki að fara beint á ríkið. Það þarf ekki að fara beint á neina stofnun. Það getur sektað lögaðila beint fyrir að veita ekki upplýsingar.

Þá sagði ég: Nei, það finnst mér vera að fara fram hjá fullveldinu. Mér finnst það vera fullveldisafsal. Þannig að ég skrifaði ekki undir það. Það er alla vega mín túlkun á stjórnarskránni. Ég vil leyfa henni að njóta vafans í þessum málum.

Það er þetta sem ég er að reyna að átta mig á. Hvað þýðir það með þessari nálgun hv. þm. Ólafs Ísleifssonar? Hvað getur hann leyft sér í framtíðinni ef þetta er skilgreiningin á fullveldinu? Hvar nákvæmlega er þessi skilgreining á fullveldinu? Má gera þetta? Við erum að segja að það mætti sekta íslenska lögaðila beint út af því að í þriðja orkupakkanum er verið að heimila ESA að taka ákvörðun um (Forseti hringir.) strenginn, að taka bara ákvarðanir varðandi strenginn, sem þeir geta úrskurðað beint um og Skipulagsstofnun myndi þurfa að framfylgja (Forseti hringir.) því. Ég gæti þá farið til dómstóla þannig að fullveldissjónarmið — það er rosalega mikilvægt að við fáum (Forseti hringir.) það skýrt fram hvar hv. þingmaður setur það. Hvar er línan?