149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Jú, ég er sammála því og kom einmitt að því í ræðu áðan þegar ég kallaði eftir orkustefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem menn taka einhverja stefnu, setja sér einhver markmið. Hvert ætlum við að fara sem þjóð? Ætlum við að virkja meira af fallvötnum? Ætlum við að virkja meira af jarðvarmavirkjunum? Ætlum við að fara í djúpboranir? Ætlum við að fara í vindorkuver? Hversu stór mega þau vera? Hversu víða? Hversu há möstur o.s.frv.? Ætlum við sem þjóð að fara í sjávarfallavirkjanir? Ætlum við að fara í ölduvirkjanir? Það er engin stefna. Við köllum eftir henni. Auðvitað er þetta umhverfismál af því að allt þetta hefur mjög misjöfn áhrif á umhverfið. Eins og hv. þingmaður veit er ekki sama hvernig það er unnið.