149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir spurninguna. Jú, mér er kunnugt um að unnið er að orkustefnu. Það er hið besta mál og ég mun auðvitað fagna því þegar hún kemur. En þetta er svipað og að fara í hlaup, það er ekki hægt að hlaupa af stað fyrr en búið er að leggja brautina. Hlaupabrautin er lögð áður en hún er hlaupin. Þetta er svipað. Við erum komin mjög langt. Við erum búin að virkja hérna í áratugi og hraðinn í virkjunarsögunni er mikill, eins og ég hef farið ítarlega yfir ef hv. þingmaður hefur fylgst með. Við virkjum sífellt meira og meira hvern áratug sem við lítum til baka. Bara frá árinu 2000 hefur það aukist gífurlega. Þess vegna þarf orkustefna auðvitað að liggja fyrir, þótt fyrr hefði verið. En að sjálfsögðu fagna ég því með hv. þingmanni ef verið er að vinna að orkustefnu og hún væntanleg mjög fljótlega. Það er fagnaðarefni.