149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hér erum við mætt á ný, nýböðuð og steinkuð eftir smápásu frá þessari umræðu. Það ætti öllum að vera ljós nauðsyn þess að meta áhrif þriðja orkupakkans með hliðsjón af EES-samningnum. Ég tek það skýrt fram að með þessum orðum er ég alls ekki að kasta rýrð á EES-samninginn. Það þarf í því samhengi að skoða aðrar gerðir ESB sem ýmist hafa þegar verið lögleiddar hér eða verða að öllum líkindum lögleiddar. Þar nefni ég sem dæmi þjónustutilskipun ESB og reglugerð 347/2013, um kerfisþróunaráætlun ESB og samræmda meðhöndlun umsókna fyrirtækja um leyfi til uppbyggingar innviða til orkuflutnings á milli svæða eða landa.

Allt regluverk ESB á það sammerkt að miða að því að draga úr opinberu eignarhaldi og rekstri og að efla frjálsa samkeppni. Margir hérlendis hafa gleypt þennan málflutning eins og þorskur bítur smokkfisk og gildir þá engu hvort öngulinn sé ryðgaður eða með ónýtu agnhaldi. Rökin gegn slíkum málflutningi halda engan veginn, m.a. af ástæðum sem ég mun rekja hér.

Í fyrsta lagi verður aldrei á Íslandi frjáls samkeppni að evrópskum hætti sem þrýstir raforkuverðinu niður í lágmark þess sem arðbært getur talist af því að hér verður alltaf fákeppni til staðar og staða orkuvinnslu fyrirtækjanna er fádæma ójöfn. Orkukaup öll að hætti ESB verða þess vegna orkukaupendum varla til hagsbóta. Við erum það fámenn þjóð.

Í öðru lagi er þjóðin sennilega ekki á þeim stað að hún sé tilbúin til að líta á rafmagn sem hverja aðra vöru, enda er eðli orku um margt ólíkt eðli annarra vara. Rafmagn er engin venjuleg vara. Flestir líta á orku sem auðlind og auðlindir eiga að sjálfsögðu að vera í eigu hvers samfélags og þjóna hagsmunum þess samfélags. Það þýðir m.a. að orkan sé nýtt og hún metin til gagns samfélaginu á annan hátt heldur en að verðleggja hana í evrum. Samfélagið eða fyrirtæki í eigu þess eiga að fá að nýta þessar auðlindir og setja um þær leikreglur sem hentar samfélaginu sem best, samfélaginu til hagsbóta.

Að sama skapi mætti líta á dreifikerfið sem nauðsynlega innviði samfélagsins. Við verðum að gæta að því að ákvarðanir sem við tökum lýðræðislega um nýtingu orkuauðlinda náist í fullri sátt. Í því sambandi er nauðsynlegt að við höfum full yfirráð að öllu leyti og stjórn yfir þeim málum.

Við innleiðingu þriðja orkupakkans erum við að öllum líkindum að missa forræði yfir því hvernig regluverk orkugeirans verður. Við eigum að sjálfsögðu að líta á raforkukerfið allt sem nauðsynlega innviði þjóðfélagsins. Slíkir innviðir eiga að sjálfsögðu að vera á ábyrgð þjóðarinnar og lúta þeim reglum sem þjóðin er algerlega sátt við.

Hæstv. forseti. Nú er tvímælalaust komið að því að ég biðji um að Alþingi hugsi sinn gang alvarlega í stöðu þessara mála. Það er of langt mál að telja upp öll þau varnaðarorð sem hafa verið sögð. Það sem hér er í húfi gæti verið t.d. stjórnarskráin eða framtíð þjóðarinnar og ekki síst verðum við að gæta þess að missa ekki yfirráð yfir orkuauðlindinni. Við skulum muna að áhrif þess að samþykkja þessa þingsályktunartillögu geta komið fram síðar, eftir fimm ár, eftir tíu ár og jafnvel eftir 20 ár. Hver veit? En það er okkar á ábyrgð, drengskapur okkar sem alþingismanna liggur undir. Það liggur ekkert á að koma þessu í gegn. (Forseti hringir.) Stöldrum við.