149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það megi færa rök fyrir því sem Þorsteinn Pálsson nefnir á vefsíðu Hringbrautar. Ég hygg að hann geti rökstutt það sem hann sagði enn þá betur í rauninni en í þessari grein vegna þess að með því að innleiða þriðja orkupakkann, í það minnsta eins og hann lítur út í dag, erum við að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins. Við erum að innleiða stefnu, innleiða markmið, við erum að innleiða tækin og tólin sem tilheyra þessari stefnu. Þau eru áfram útfærð í orkupakka fjögur, gerð nr. 72/2009. Hún er útfærð enn þá frekar í þessum nýja orkupakka. Það sama á við gerð nr. 714, minnir mig að það sé frekar en nr. 713/2009, þar eru frekari útfærslur. Allt miðar þetta að því að orkustefna Evrópusambandsins verði að veruleika fyrir allt EES-svæðið, Evrópusambandið, Noreg, Ísland og Liechtenstein.

Þar af leiðandi má segja að fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi rétt fyrir sér. Það sé verið að taka skref, skref sem við héldum kannski að við myndum seint gera, að fara að deila umsýslunni með auðlind okkar með Evrópusambandinu. Það má með sanni segja að þá sé einu deiluefninu ýtt til hliðar. Það má segja það.

Hvað tekur þá næst við? Er það sjávarútvegurinn? Við getum alveg spurt okkur þessara spurninga ef menn ætla að taka þessi skref áfram. Það er í rauninni alveg ótrúlegt, hv. þingmaður, að það skuli gerast á vakt þeirra þriggja flokka sem nú eru í ríkisstjórn. Nema þeir hafi vísvitandi núna tekið einhverja nýja ákvörðun og aðra varðandi Evrópustefnu sína.