149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var mjög athyglisvert sem kom fram frá Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi alþingismanni og ráðherra, sem hefur verið ötull baráttumaður gegn innleiðingu orkutilskipunar númer þrjú frá Evrópusambandinu.

Þegar verið var að innleiða orkutilskipun eitt og tvö sem tóku gildi með nýjum raforkulögum 2003 þá voru Vinstri grænir og Ögmundur Jónasson, sem var eins og við þekkjum alþingismaður og ráðherra fyrir Vinstri græna, á móti þeirri innleiðingu og voru mjög staðfastir í því. Þeir fluttu mjög margir hverjir góðar ræður í þeim efnum sem ég hef verið að kynna mér, og þar á meðal góðar ræður eftir þingforseta og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, allar á sama veg, að það væri mjög varasamt að Íslendingar tækju þátt í að markaðsvæða raforkuna með þeim hætti sem tilskipanirnar fælu í sér. Okkar raforkumarkaður væri allt annar og okkar aðstæður með allt öðrum hætti en í Evrópusambandinu.

Þessi málflutningur Vinstri grænna var mjög trúverðugur og þeir mega vera stoltir af því að hafa greitt atkvæði gegn orkupakka eitt og tvö. Því vekur mjög mikla undrun að þeir skuli núna vera fylgjandi orkupakka þrjú og hafa í raun ekki fært fram nein rök í þeim efnum. Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því að hann vitnaði í Ögmund Jónasson, er: (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um það hvað veldur þessum sinnaskiptum Vinstri grænna sem hér hefur verið lýst?