149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég styð þá dagskrá sem hér liggur frammi og tel að það sé þinginu til heilla að við reynum að halda áfram umræðum um þau mál sem liggja fyrir og hafa komið hér, eins og forseti hefur nefnt, úr afgreiðslu þingsins. Ég átta mig ekki á því hvort tillagan sem borin var fram um daginn um að setja orkupakkamálin aftast var bara þá en ekki nú. Alla vega er ekki hægt að segja að ekki sé leitast við að koma til móts við það.

Forseta er auðvitað vandi á höndum ef þingflokksformenn sem hann þarf að ræða við neita að setja mál á dagskrá eins og gerðist í gær, þ.e. það var ekki til umræðu að setja önnur mál á dagskrá. Við tökum hvern dag fyrir í senn. Það var aðeins rætt um dagskrá dagsins í gær. Það var ekkert rætt um dagskrá dagsins í dag af hálfu forseta við okkur þingflokksformenn. Hann hefur dagskrárvaldið og ræður þessu. Ég styð hann í því að við höldum áfram (Forseti hringir.) inn í þau mál sem liggja fyrir.