149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að forseti hafi lýst því ágætlega áðan hvaða vandi snýr að honum í þessu máli. Hann er sá að í raun hefur ekki verið samkomulag um að ræða ágreiningsmálin sem vissulega eru á þessum lista, dagskrárlista fyrir daginn í dag, með 41 máli, en það hefur heldur ekki verið samkomulag um að ræða samkomulagsmálin. Þegar forseti hefur nefnt það við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar hvort ekki væri hægt að þoka áfram málum sem samkomulag er um, málum þar sem nefndir standa sameiginlega að áliti og ekki er neinn efnislegur ágreiningur um, hefur því ekki verið vel tekið. Það væri gaman að heyra ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem koma hér upp í heilagri vandlætingu og reiði, gætu lýst því hvaða málefnalegu ástæður þeir hafa fyrir því að leggjast gegn því að hér séu rædd mál sem full samstaða hefur verið um fram að þessu. Það væri gaman að heyra hver efnislegu rökin eru fyrir því að ekki megi tala um málin sem hér liggja fyrir sem eru efnislega í góðu samkomulagi.