149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Að sjálfsögðu má tala um þessi mál, það á að tala um þau og ég er ánægður með þessa dagskrá. (Gripið fram í: Frábært.) Við verðum að fara eftir leikreglunum. Það eru samningar í gangi og menn geta beitt alls konar brögðum en þeir verða að fara eftir leikreglunum. Leikreglurnar segja að forseti hafi dagskrárvaldið. Hann hefur gríðarlegt vald. Hann hefur algjörlega sitt dagskrárvald núna. Það er búið að kippa starfsáætlun úr sambandi þannig að hann getur sett á fundi hvenær sem honum sýnist og hann ræður dagskránni.

Hann verður samt að hafa samráð við þingflokksformenn um þá dagskrá. Það segja þingskapalögin. Ef forseti ætlar að beita valdi sínu mun ég beygja mig undir það meðan það er í reglunum, meðan það er í lögunum, en um leið og hann fer umfram er hann orðinn harðstjóri. Það er orðið yfir það og við sættum okkur ekki við svoleiðis. Það gengur ekki og það er mjög hættulegt að forseti fylgi ekki reglunum.

Reglurnar segja alveg skýrt, í 86. gr., að forseti skuli hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, (Forseti hringir.) m.a. um áætlanir um þingstörf hverrar viku. Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.

Forsetinn okkar fylgir því ekki. Það gengur ekki.