149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála, þetta er ekki auðveld spurning — og ekki hef ég betri svör við henni sjálfur. En þetta er áleitið umhugsunarefni eins og hv. þingmaður kom einmitt inn á. Við förum af stað með alveg stórkostlegt samskiptatæki sem er netið sem hefur smækkað heiminn okkar, fært okkur nær hvert öðru en virðist um leið, eftir því sem það þróast áfram, vera að snúast pínulítið upp í andhverfu sína, þ.e. við erum að einangrast í einhverjum búblum skoðanasystkina okkar og síðan sjáum við mjög hættuleg merki um að óprúttnir aðilar, og jafnvel þjóðríki, séu að nýta sér þá staðreynd til að reyna að hafa, og ekki bara reyna heldur hafa með áþreifanlegum hætti, áhrif á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, að blekkja tiltekna skoðanahópa til að kjósa tiltekna aðila umfram aðra og spila inn á tilfinningar með falsfréttum. Þar eru þá að baki algjörlega nafnlausir aðilar og engin leið virðist vera að rekja það til hinna eiginlegu ábyrgðaraðila.

Mér finnst áhyggjuefni þegar við sjáum sömu tilburði hér á landi. Við getum ekki ímyndað okkur að við verðum undanskilin þessari þróun frekar en önnur lýðræðisríki. Þó að við sjáum kannski ekki stórveldi hafa afskipti af lýðræðislegum kosningum með jafn afgerandi hætti er það engu að síður mjög ógnvænleg þróun fyrir lýðræðið hér þegar við sjáum nafnlausa innlenda hópa, að við teljum, fara fram með svipuðum brögðum. Með einhverjum hætti þurfum við að (Forseti hringir.) bregðast við og það voru vonbrigði að það var ekki gert eftir síðustu kosningar, að ekki var gengið lengra í að rannsaka hverjir stæðu að baki slíku.