149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer hér með réttu inn á málefni sem varðar reyndar frumvarp sem sá sem hér stendur hefur lagt fram um stafrænt kynferðisofbeldi, sem reyndar mætti betur kalla myndrænt kynferðisofbeldi. Það varðar refsiábyrgð gagnvart þeim sem dreifa efni með nekt eða kynhegðun einstaklings án samþykkis þess sama einstaklings. Það hvernig eigi að hafa stjórn á slíku efni og hvað þá barnaklámi er flókin spurning sem er tekist á við í umræddu frumvarpi, sem ég hef því miður ekki tíma til að fara yfir almennilega í andsvari, en ég hvet alla til að kynna sér það. Ég vil nefna líka að það er frumvarp í smíðum hjá hæstv. forsætisráðherra sama efnis. Sá starfshópur hefur blessunarlega haft mjög ríkt og gott samráð við þá aðila sem hafa áhyggjur af slíkum efnum.

Í þessu frumvarpi er ekki lagt til að töluliðurinn sem fjallar um vitneskju um gögn sem innihalda barnaklám sé felldur brott. Það er samt ágætt að hafa í huga ákveðinn eðlismun þegar kemur að tilhneigingu til þess að dreifa svona hlutum. Þegar um er að ræða höfundaréttarbrot er dreift efni sem fólk vill eðli málsins samkvæmt hafa aðgang að og hefur gaman af því að dreifa, á meðan hlutir eins og barnaklám eða ofbeldi, efni þar sem vitað er til að sé ofbeldi, er eitthvað sem fólk vill almennt ekki sjá og vill almennt ekki dreifa. Það er innbyggð feimni í mannlegu samfélagi við að dreifa slíku efni. Það breytir rosalega miklu. Höfundaréttarbrot eru í raun og veru, eins og ég fór yfir í ræðu minni, framin í ofboðslega miklu skilningsleysi á lagalegum og réttarfarslegum undirstöðum höfundaréttar, enda flókið málefni, á meðan eitthvað eins og barnaklám eða ofbeldi er tiltölulega skýrt og við getum auðveldlega lært í æsku að sé rangt og hvers vegna það sé rangt.

Þessu verður einfaldlega ekki beitt svo auðveldlega, (Forseti hringir.) sér í lagi vegna þess að þar er um að ræða vitneskju um gögn, ólíkt því sem segir í 2. tölulið sem lagt er til að verði felldur brott.