149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er líka hjartanlega sammála hv. þingmanni. Guð forði okkur frá því að vera með einhverja opinbera stofnun sem eigi að fara að leggja mat á sannleiksgildi hinna ýmsustu staðhæfinga, hann kom inn á mjög hættulega braut þar. Hluti af tjáningarfrelsinu hlýtur alltaf að vera frelsi til þess að ljúga, en vandinn liggur þá kannski frekar í því í þessu tilviki, þegar kemur að efni sem tengist lýðræðislegum kosningum, að það sé alla vega á hreinu hver sé að ljúga. Í þá átt sýnist mér löggjöf annarra ríkja vera að byrja að þróast, að það sé einhvers konar ríkari upplýsingaskylda um hver standi að baki auglýsingaherferðum, þær séu skráðar með þeim hætti að hægt sé að afla sér í það minnsta upplýsinga. Facebook hefur opnað fyrir einhvers konar upplýsingagátt um pólitískar auglýsingar þar sem m.a. eru birtar skýrar upplýsingar um hvaða útbreiðslu þær náðu, hvað þær kostuðu, hverjir greiddu reikninginn o.s.frv., sem auðveldar þá rannsókn mála ef talið er að ólöglega hafi verið að verki staðið.

Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er einmitt sú hversu hárfín línan er þegar kemur að frjálsum lýðræðislegum kosningum og tjáningarfrelsi en um leið hvernig við getum þá varið okkur gegn misnotkun. Það er í raun og veru kannski kjarni málsins. Þegar við horfum á afskipti Rússa af lýðræðislegum kosningum, ekki bara í Bandaríkjunum, jafnvel í Bretlandi í tengslum við Brexit-umræðu og víðar, er verið að notfæra sér veikleika lýðræðislegra samfélaga til að taka á og spyrna við fótum gegn slíkum afskiptum og algjörlega yfirlýstum með ráði gert. Fyrsta verkefnið okkar hlýtur að vera að endurskoða okkar eigin kosningalöggjöf hvort það sé beinlínis hægt, a.m.k. að taka á og rannsaka þessi mál, því að niðurstaðan virtist vera, þegar óskað var eftir athugun á slíkum (Forseti hringir.) afskiptum af síðustu alþingiskosningum, að öll úrræði skorti hvort eð er og lítill tilgangur með rannsókninni við þær kringumstæður.