149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ráðumst í þessar breytingar. Ég velti t.d. fyrir mér í þessari umræðu um títtnefnt barmmerki hvort ekki sé bara jafn mikill eða meiri áróður á kjörstað þegar þjóðþekktur stjórnmálamaður mætir til að kjósa, hann er alveg jafn mikið merki síns flokks og barmmerkið sem hann bæri mögulega í jakkanum. Mér finnst alltaf dálítið kómískt að við skulum hafa einhverjar stórkostlegar áhyggjur af þessu, að ég muni mögulega skipta um skoðun fyrir framan kjörklefann af því að ég sá einhvern labba með merki Samfylkingarinnar í jakkanum. Á sama tíma erum við jafn áhyggjulítil yfir þessum ógnum. Mér finnst lágmark að við tryggjum gagnsæi þegar kemur að pólitískum afskiptum inn í kosningar, hverjir eru að skipta sér af kosningum sem allir hafa samt fullt frelsi til. Mér finnst bara lágmark ef hagsmunaaðilar fara að beita sér með einhverjum (Forseti hringir.) skipulögðum hætti, með því að kaupa markvissar auglýsingaherferðir að það sé alveg skýrt hver standi að baki þeim þannig að það sé líka hægt að svara viðkomandi aðilum.