149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni, ég hef kannski fyrst og fremst velt þessu fyrir mér í samhengi við þá viðbót inn í löggjöfina sem við erum að ræða, sem ég og hv. þingmaður stöndum saman að nefndaráliti um. Ég tel augljóslega ekki leiðina til að berjast gegn kosningasvikum þá að herða enn frekar á þeirri löggjöf, heldur kannski frekar einmitt á grundvelli þess ákvæðis sem við erum þó að ræða hér og væntanlega að fara að samþykkja, að skerpa þannig á kosningalöggjöfinni okkar að við séum komin með heimild til að beina því til hýsingaraðila að stöðva dreifingu tiltekins efnis brjóti það gegn kosningalöggjöfinni. Þar sýnist mér veikleiki okkar liggja. Við erum með mjög takmörkuð réttarúrræði, einfaldlega af því að kosningalöggjöfin okkar, eins og nefnt var ágætlega, er sennilega einhverjum áratugum á eftir þróun (Forseti hringir.) samfélagsmiðla hvað þessi mál varðar.