149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um afskaplega mikilvægt mál sem er tillaga til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Um er að ræða þingsályktunartillögu frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra, sem nú heitir svo, sem lögð var fram hér á þinginu og hefur verið í ítarlegri meðferð í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um nokkurt skeið.

Mig langar í byrjun aðeins að fara í fylgiskjal sem fylgir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar en um er að ræða skjal sem inniheldur úrvinnslu úr gögnum rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga sem framkvæmd var á árunum 2012 og 2017. Þessar tölur eru vægast sagt mjög sjokkerandi og sýna okkur svart á hvítu að við þurfum að fara í mjög umfangsmiklar aðgerðir gegn ofbeldi hér á landi.

Í umræddri rannsókn var rætt við fjölda Íslendinga. Þetta var úrtakskönnun sem byggðist á svörum um 6.500 þátttakenda árið 2012 og 6.400 þátttakenda árið 2017. Því miður er í henni aðeins rætt við íslenska ríkisborgara, 18 ára og eldri, með skráða búsetu á Íslandi. Því er ljóst að erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hér á landi eru ekki stak í því mengi sem rannsóknin nær yfir. Ég tel að það sé bagalegt því að ég held að ég geti fullyrt að á meðal erlendra ríkisborgara af öllum kynjum séu hópar sem eru útsettari fyrir hvers kyns ofbeldi, oft vegna bágrar stöðu. Og nú er ég alls ekki að segja að erlendir borgarar sem búsettir eru hér á landi, eða fólk af erlendum uppruna, sem er þá ekki erlendir borgarar heldur íslenskir borgarar af erlendum uppruna — að þar inn á milli leynist fólk í viðkvæmari stöðu en ella. Ég er að tala um að það séu ekki allir í viðkvæmri stöðu heldur að þar leynist einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem eru þá útsettari fyrir ofbeldi. Þess vegna þykir mér miður að sá hópur sé ekki með inni í þessu.

Engu að síður má hér sjá sjokkerandi tölur. Þegar spurt er um hvort fólk hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi má sjá að 37,7% karla á aldrinum 18–44 ára segjast hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi en tæplega 23% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á þessum aldri, 18–44 ára. En þegar heildartalan er tekin eru það 27,5% karla og 18,9% kvenna. Þetta er auðvitað mjög stór hópur sem hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Þegar þátttakendur eru hins vegar spurðir hvort þeir hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi segja 8,8% karla á aldrinum 18–44 ára að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, það er tæplega 10%, en 30,4% kvenna á aldrinum 18–44 ára hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á ævi sinni. Þetta er þriðja hver kona á þessu aldursbili, 22,8% kvenna á aldrinum 45–66 ára og 9,4% kvenna á aldrinum 67 ára og eldri. Heildartala 18 ára og eldri er 7% karla sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og 23,9% kvenna.

Þessar tölur eru alveg svakalegar. Þær eru ofboðslegar. Það er í raun alveg ótrúlegt að við séum ekki búin að snúa öllu á hvolf, að við séum ekki búin að búa svo um hnútana að þegar maður verður fyrir ofbeldi, kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi, geti maður án tafar leitað réttar síns og fengið niðurstöðu í málin áður en langur tími líður. Sú er svo sannarlega ekki raunin í dag. Einnig er mjög áhugavert að skoða hverjir það eru sem beita ofbeldi. Í tilviki kvenna eru það 1,2% sem verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu maka eða kærasta, 3% sem verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu fyrrverandi maka eða kærasta, 5,4% af hálfu vinar eða félaga, 5,4% ættingja, 6,6% ókunnugra og 6,1% annarra. Þetta þýðir að kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum er í næstum því 20% tilvika framið af einhverjum sem konan þekkir. Það er nokkuð sem við ættum að horfa á og miða þjónustuna út frá því að það er yfirgnæfandi hluti ofbeldisins þegar ofbeldi er 24% og það er á bilinu 15–20% einhver sem konan þekkir sem á í hlut.

Hjá körlum sem verða fyrir kynferðisofbeldi eru það 0,2% maki eða kærasti, 0,4% fyrrverandi maki eða kærasti, vinur eða félagi 1%, ættingi 1,2%. Samtals eru þetta 4%. Og svo ókunnugur 2,4% og annar 2,3%. Þessar tölur eru nokkuð sem við í kerfinu öllu ættum að horfa á því að viðbrögð okkar ættu að miðast við þær staðreyndir sem við erum með um það hverjir það eru sem beita ofbeldi. Það er það sem þarf að uppræta. Við þurfum að horfa á hverjir það eru sem beita ofbeldi.

Ég veit til þess að lögmaðurinn Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, sem hefur mikið unnið með brotaþolum heimilis- og kynferðisofbeldis, skrifaði meistararitgerð við lagadeildina um það hverjir eru fremjendur ofbeldis. Það voru mjög áhugaverðar niðurstöður sem komu úr þeirri rannsókn því að þar sást að ofbeldi fer ekki í manngreinarálit. Þeir sem fremja ofbeldi eru bara þverskurður af samfélaginu. Við höldum alltaf að það sé einhver ákveðin tegund af mannfólki sem beitir ofbeldi. En þetta er það sem við ættum að vera að skoða og við ættum að vera alveg dýrvitlaus í að uppræta þetta ofbeldi af því að þetta er svo víðtækt.

Það er kannski það sem gerir mig pínulítið spælda varðandi þessa þingsályktunartillögu, þó að hún sé góðra gjalda verð og gott að við séum að horfa á þetta, að mér þykir hún bara svo óskaplega almenn. Mér finnst hún svolítið mikið loftkennd. Þó að tillögurnar séu margar góðra gjalda verðar, og auðvitað er umræðan til alls fyrst og allt það, finnst mér þetta vera fullmikið af starfshópum sem eiga einhvern veginn að velta hlutunum fyrir sér. Þetta er fjögurra ára tímabil en þetta er svolítið mikið af vangaveltum á meðan við erum líka að horfa á atriði sem við ættum að geta farið í og unnið í og klárað og tekið ákvörðun um að fjármagna og fjárfesta í. Þetta snýst ekki bara um peninga en þetta snýst líka um peninga.

Það er það sem er stóra gagnrýniefnið sem má sjá hér í upphafi nefndarálitsins, sem er mjög ítarlegt og faglega unnið og augljóslega bara heiðarlega. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Flestir gestir voru á einu máli um að það heildarfjármagn sem er ætlað til aðgerða gegn ofbeldi og afleiðingum þess myndi duga skammt og að kostnaðaráætlun fyrir einstakar aðgerðir væri oft og tíðum algjörlega óraunhæf og myndi ekki leiða til þess að markmiðum aðgerðaáætlunar yrði náð.“

Aðeins síðar í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins var nefndinni einnig bent á að óljóst væri hvort kostnaðaráætlun þingsályktunartillögunnar næði eingöngu utan um kostnað ríkisins eða hvort kostnaðaráætlun ætti einnig að standa undir kostnaði sem samstarfsaðilar yrðu fyrir við vinnu og innleiðingu hennar. Sérstaklega var rætt um aðkomu sveitarfélaga þar sem ekki væri að sjá að ríkið myndi leggja fjármagn til sveitarfélaga til að fylgja eftir verkefnum en auk þess þyrfti að hafa til hliðsjónar 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem kveður á um að fara þurfi fram kostnaðarmat ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að lagafrumvarpi, tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda ríkisins muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög.“

Loks má sjá í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Þá var bent á mikilvægi þess að huga að því hvaða kostnaður lægi í að þýða og miðla til fólks, þar á meðal barna af erlendum uppruna.“

Og þar á eftir segir:

„Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin augljóst að fjárfesta þurfi í málefnasviðinu.“

Það er þar sem ég vil staldra aðeins við núna. Ég hef unnið í réttarvörslukerfinu þegar kemur að ofbeldismálum. Ég var um nokkurra ára skeið lögmaður á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og lögmaður á móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis. Maður varð svo áþreifanlega var við af hve skornum skammti fjármagn inn í þetta kerfi var. Það er fullkomlega óboðlegt að þolendur kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis þurfi að bíða árum saman eftir réttlætinu, þurfi að bíða árum saman eftir því að geta í raun lokað málinu, geta fundið að búið sé að afgreiða það í kerfinu til að geta hafið lokavinnslu í úrvinnslunni á þessum ofboðslega sára sársauka sem fólk finnur fyrir við það að vera beitt ofbeldi. Ekki síst vegna þeirrar staðreyndar sem ég nefndi í upphafi, þ.e. hversu yfirgnæfandi meiri hluti gerenda ofbeldis er einhver sem brotaþoli þekkir, ýmist innan fjölskyldu eða vinahóps eða á vinnustað.

Þá skiptir það enn meira máli af því að á hverjum degi þarf brotaþoli að standa frammi fyrir kvalara sínum. Þá skiptir svo miklu máli að strax sé gripið inn í, að strax sé farið í verkið, að viðbrögðin séu raunveruleg en ekki þannig að maður hafi það á tilfinningunni að vera neðst í bunkanum árum saman og fá engar upplýsingar. Það er auðvitað það sem margir brotaþolar hafa kvartað mikið undan.

Það kemur líka fram í nefndarálitinu að nefndin hafi ekki talið tímabært að leggja til neinar breytingar á kostnaðaráætlun við allar þessar aðgerðir af því að það lá ekkert fyrir um hvað þetta myndi kosta. Það virðist ekki hafa verið nein áætlun uppi. Þá veltir maður líka fyrir sér hvaða tölur þetta eru í þingsályktunartillögunni. Þetta lítur pínulítið út eins og smartís sem er skutlað yfir því að ýmist stendur hér að kostnaðaráætlun sé 2 milljónir árlega eða innan ramma. Sums staðar er búið að gera þetta ítarlega en þetta er einhvern veginn svona milljón hér og milljón þar. Manni finnst eins og þetta sé ekki raunhæft, eins og kemur svo sem fram. Annað er að þetta sé ekki raunhæft, hitt er að engin hugsun sé á bak við það.

Þá verð ég líka að setja út á það sem kemur fram í nefndarálitinu að nefndin beini því til ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar að leggja áherslu á að ná fram þeim markmiðum sem aðgerðin á að ná fram með því að leggja raunhæft mat á kostnaðinn þegar nánari útfærsla hverrar aðgerðar liggur fyrir. Hvetur nefndin ráðuneytin til að vekja athygli fjárlaganefndar Alþingis á slíkri þróun sem verður á verkefnunum og beinir nefndin því til ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar að leggja áherslu á að ná þessum peningum úr fjárlaganefnd. En nefndin samanstendur af fulltrúum löggjafarvaldsins sem fer með fjárveitingavald ríkisins.

Þarna finnst mér enn og aftur löggjafinn algjörlega kasta til höndunum þegar kemur að ábyrgri fjármálastjórn og í raun setja það í hendurnar á alls konar hópum sem eiga að gera hitt og þetta, stýrihópum og hinum og þessum hópum, að finna út úr því hvernig fjármagna megi hlutina.

Að þessu sögðu, af því að nú hef ég ekki mikinn tíma eftir, verð ég að hrósa nefndinni fyrir að hafa leitt alla að borðinu, fengið þennan stóra hóp til fundar við sig til að ræða þetta mál. Það virðist hafa verið tekið gríðarlega vel utan um þennan hóp sem á einhvern hátt kemur að þessum málum, kemur að börnum, kemur að þolendum ofbeldis af öllum kynjum, þjóðernum o.s.frv. Það virðist hafa verið reynt að halda vel utan um að fá sem víðtækastar upplýsingar. Ég verð að segja að mér finnst mjög virðingarvert að sjá þá ítarlegu og góðu vinnu sem hefur augljóslega verið lögð í þetta þótt ég endurtaki gagnrýni mína er varðar hið faglega mat á kostnaði við þessar aðgerðir. Það erum við sem förum með fjárveitingavaldið og það er ekki bara í þessu máli sem ég gagnrýni það, það er í fleiri málum og í nefndum þar sem ég á sæti.