149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað er alveg rétt að það er mikilvægt að tala þannig að fólk skilji mann og ég veit ekki betur en að hv. þingmaður sé leikinn í því og takist það ævinlega alveg prýðilega.

Það er alveg rétt að það er lykilatriði að máltækniverkefnið nái virkilega flugi. Við verðum að geta, á nýrri máltækniöld, notað íslenskuna í okkar daglega lífi. Ef við hættum að nota íslensku í okkar daglega lífi og förum að nota hana bara spari deyr hún út. Þá verður hún bara eins og latína. Hv. þingmaður var að rifja upp þegar hann var í skóla en ég var svo lánsamur að ég lærði latínu (Gripið fram í.) á minni skólatíð og það hjálpaði mér að skilja málfræði og málfræðilega undirstöðu íslenskunnar og þýskunnar og annarra tungumála, og það er alveg heillandi efni að sökkva sér ofan í.

Umfram allt finnst mér mikilvægt, til þess að tungumál sé lifandi og haldi áfram að vera lifandi, að þeim sem nota málið líði vel í því og að þeir leiki sér með það, þeir hugsi á málinu og segi brandara, afbaki málið og sletti, prufi að færa inn í málið alls konar skrýtin orð sem kannski detta út af því að þau bara ganga ekki en þeir noti samt sem áður málið og leiki sér með það.