149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

767. mál
[21:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp um samtök um evrópska rannsóknarinnviði er mikilvægt fyrir háskólasamfélagið okkar og það rannsóknasamstarf sem þar á sér stað og er mikið umbóta- og framfaramál. Ég er mjög þakklát nefndinni fyrir það hvernig hún hefur farið yfir málið. Ég tel mjög gott að málið sé komið fram með þessum hætti og tel að þær viðbætur sem fram koma í nefndarálitinu séu allar góðar. Ég veit að þetta er eitt af þeim málum sem margir vísindamenn bíða eftir og það er mjög gott til að auka veg alþjóðasamstarfs er varðar vísindi.

Virðulegur forseti. Ég vil til fróðleiks geta þess að ég var á ársfundi Háskóla Íslands í dag og það er afskaplega ánægjulegt að sjá hversu vel vísindamönnum okkar vegnar í alþjóðlegu samstarfi, hversu margar birtingar þeir fá og áhrifamátt þessara greina. Við erum með mjög hátt hlutfall þar og þetta lagafrumvarp er einmitt gert til þess að auka tækifæri og hlúa að vísindasamstarfi okkar.