149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

lýðskólar.

798. mál
[22:26]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. „Svo miklu meira en bara skóli“ er yfirskrift Lýðskólans á Flateyri. Ég held að það lýsi því nokkuð vel hversu mögnuð fyrirbæri lýðskólar eru. Ég þekki fjölda fólks sem hefur farið t.d. til Norðurlandanna í lýðskóla í gegnum árin og ég hef ekki enn hitt neinn sem var ekki ánægður eða glaður með þá ákvörðun að hafa farið í lýðskóla eða lýðháskóla og ég fagna því mjög að hér sé loksins að verða til löggjöf sem nær utan um þessa tegund skóla á Íslandi.

Mig langaði fyrst og fremst að koma upp til að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja málið fram og nefndinni fyrir að vera að klára það. Ég held að það sé gríðarlega dýrmætt fyrir Ísland að vera komið með þessa fjölbreytni inn í flóru menntakerfisins.

Ég nefndi Lýðskólann á Flateyri. Þetta er einmitt svo magnað dæmi. Nú þekki ég þar a.m.k. tvær manneskjur, önnur sem er ung kona á mínum aldri og var búin að vera að vinna og gera alls konar hluti en fann sig samt einhvern veginn ekki á vinnumarkaðnum og vissi ekki alveg hvað hana langaði til að gera og datt í hug að flytja með fjölskylduna til Flateyrar og fara í Lýðskólann. Og hún er svakalega ánægð, hún er einmitt svona útivistartýpa og er að nýta þá hlið skólans sérstaklega. Hin sem ég þekki er mamma vinkonu minnar, fullorðin kona — eða svona, ég er víst líka fullorðin. En það er annað mál. Hún er sem sagt komin á seinni hluta starfsævinnar, ef svo má segja, mikil listakona. Hún tók sig til og fór í Lýðskólann á Flateyri og fann sig einmitt líka vel í þessu magnaða umhverfi sem lýðskólarnir geta boðið upp á.

Ég held því að það sé mjög stórt skref sem við erum að taka með þessari löggjöf til að tryggja þessa skóla í sessi og tryggja að þessi tegund náms sé í boði á Íslandi. Það eru nefnilega ekki allir sem passa inn í formið, inn í kassana sem menntakerfið setur okkur svolítið og þess utan er þetta líka tækifæri fyrir einstaklinga sem einhverra hluta vegna langar til að breyta til, langar til að fá smáhlé, má segja, á sínu hefðbundna lífi, breyta aðeins til og prófa eitthvað nýtt. Lýðskólarnir eru svo fullkomið tæki til þess að læra um alls konar hluti, námskrá er oft mjög fjölbreytt, en eins og er á Flateyri og sömuleiðis á Laugarvatni er byggt á styrkleikum þess umhverfis sem skólinn er í og sérþekkingu svæðisins, sem ég held að sé líka gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta en mig langaði bara svo mikið að koma og fagna því að þetta sé komið í 2. umr. og hlakka til að greiða málinu atkvæði mitt.