149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

grænir skattar og aðgerðir í umhverfismálum.

[10:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það sem ég skil ekki alveg, miðað við hvernig þetta er sett fram í tillögum ríkisstjórnarinnar um breytta fjármálaáætlun, er að þeir hvatar sem hæstv. ráðherrar talar um virðast ekki vera til staðar heldur er gert ráð fyrir því að skatttekjur vegna þessara nýju skatta haldist eins á tímabilinu. Ef við reiknum með því er ekki gert ráð fyrir því að urðun breytist. Ef skatttekjur af urðun eiga að haldast eins öll þessi ár þá heldur sú kenning ekki vatni að þetta muni einhvern veginn virka letjandi.

Hæstv. ráðherra talar um að ódýrt sé að urða. Ég velti fyrir mér: Er nógu ódýrt að endurvinna? Er nógu auðvelt fyrir fólk í landinu að endurvinna? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Á hverja falla þessi gjöld? Og hvers vegna, fyrst að við erum að taka 11 milljarða í skatttekjur, væntanlega af almenningi og fyrirtækjum í landinu, skila þeir 11 milljarðar sér ekki í miklu meiri innspýtingu í umhverfismálin frekar en að fylla upp í eitthvert gat vegna ekkert sérlega ófyrirséðra efnahagsáfalla?