149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnu.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga samtal við hæstv. ráðherra, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins og oddviti eins af þremur ríkisstjórnarflokkum, um nýbirt álit fjármálaráðs á endurskoðun fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert launungarmál að til þessa ríkisstjórnarsamstarfs var stofnað um stórsókn í útgjöldum ríkissjóðs. Það var límið í þessu stjórnarsamstarfi sem oft hefur farið fram af meira kappi en forsjá, því að á sama tíma hefur verið mjög óljóst hvaða markmið liggja að baki stórsókninni, hvaða árangri er stefnt að öðrum en eingöngu að auka ríkisútgjöld.

Þegar umsögn fjármálaráðs er lesin kemur þar fram mjög mikill áfellisdómur yfir fjármálastjórn þessarar ríkisstjórnar. Lýst er miklum grundvallarveikleikum í þeirri sömu fjármálastjórn og raunar sagt að vandi ríkisstjórnarinnar nú, sem birtist í endurskoðun fjármálastefnu hennar, felist fyrst og fremst í veikri fjármálastjórn en ekki veikum efnahagsforsendum, alla vega eins og ríkisstjórnin vinnur út frá, því að uppsafnaður hagvöxtur á tímabili fjármálastefnunnar er 13% í stað þeirra 14% sem upprunalega var gert ráð fyrir.

Raunar er það svo að fjármálaráð kemst að mjög skýrri niðurstöðu: Það er ekki tilefni til þessarar endurskoðunar nema af þeim ástæðum einum að horfur eru á því að hagvaxtarþróun verði mun lakari en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í endurskoðaðri fjármálastefnu og þar að lútandi breytingum á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. En því gerir ríkisstjórnin einfaldlega ekki ráð fyrir í útgjalda- og tekjuáformum sínum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki mikilvægt að hlusta á þessi varnaðarorð fjármálaráðs og taka strax til breytinga endurskoðaða fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) en ekki bíða næsta árs svo þurfi að endurskoða hana að nýju eins og fjármálaráð varar mjög skýrt við að gæti orðið raunin?