149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég leita ásjár forseta í þessu máli. Í framhaldi af svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á síðasta ári um forsendur að baki hækkun bóta almannatrygginga sendi lögmaður Öryrkjabandalagsins erindi til umboðsmanns Alþingis vegna 69. gr. laga um almannatryggingar og síðan framkvæmdar fjármálaráðuneytisins við fjárlagagerð.

Umboðsmaður Alþingis sendi 18. janúar á þessu ári ákveðnar spurningar til fjármálaráðuneytisins og ákveðnar upplýsingar einmitt í þessu máli og engin svör hafa borist. Síðan hefur umboðsmaður í þrígang ítrekað þessa beiðni sína með bréfum, dagsett 26. mars, 26. apríl og síðan 16. maí. Þetta eru hátt í fimm mánuðir. Ekkert svar berst frá fjármálaráðuneytinu til umboðsmanns. Þess vegna leita ég til þín, kæri forseti, til að umboðsmaður fái stuðning frá þinginu við það að fjármálaráðuneytið svari umboðsmanni þannig að öryrkjar fái skýrari svör um nákvæman útreikning við framkvæmd almannatrygginga (Forseti hringir.) og þar með örorkubóta.

Ég leita ásjár, herra forseti, hjá þinginu. Það þarf að þrýsta á fjármálaráðuneytið að svara umboðsmanni í þessu máli.