149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil koma hingað upp til þess að fagna og þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu í þessu máli. Það er leitt að það hafi ekki komist lengra. Mér fannst mjög gott að horfa til þess að loksins yrði komið á fót neyslurými hér á Íslandi sem er mjög mikilvægt skaðaminnkunarúrræði fyrir þá sem höllustum fæti standa þegar kemur að vímuefnaneyslu. Þetta er mjög mikilvægt úrræði og mig langaði mjög mikið að sjá það fá framgang hér. Að sama skapi er ég mjög ánægð með þann mikla samhug og samstöðu sem hv. velferðarnefnd hefur sýnt í þessu máli þegar hún leggur til, eins og fram kemur í áliti nefndarinnar, að við umfjöllun nefndarinnar hafi einnig komið fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun.

Í greinargerð er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygi litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þessa sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna. Að þessu framangreindu leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég vil fyrst og síðast þakka hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir vinnu hennar í þessu máli en einnig hv. þingmönnum Ólafi Þór Gunnarssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Andrési Inga Jónssyni og Guðmundi Inga Kristinssyni sem öll eru sammála þessari niðurstöðu sem ég held að sýni mjög ríkan vilja þingsins til að afglæpavæða vörsluskammta fíkniefna sem mér finnst satt best að segja einkar mikið ánægjuefni — sem ég hefði kannski ekki endilega átt von á að ég myndi segja árið 2019 — vegna þess að þetta er mjög mikilvægt skref í átt að þeirri hugmyndafræði sem er að ná fótum í flestum ríkjum heims sem er sú að stríðið gegn fíkniefnum, hið svokallaða, sé stríð gegn fólki og það stríð sé tapað í þeim skilningi að ekki hefur tekist, þrátt fyrir áratugalanga bannstefnu í þessum efnum, áratugalanga refsistefnu í þessum málaflokki, að minnka umfang fíkniefna í neyslu né heldur neyslu þeirra. Það hefur ekki tekist að stemma stigu við þeim milljörðum sem fíkniefnasalar fá út úr viðskiptum sínum og nota til annarra ólögmætra aðgerða af sinni hálfu. Þetta er gríðarleg tekjulind og það hefur ekki tekist að minnka hana, heldur hefur hún þvert á móti farið vaxandi. Það hefur sýnt sig á þessari áratugalöngu bannstefnu að stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað og það var tapað frá upphafi.

Viðhorfsbreytingin sem ég vísa í, virðulegi forseti, er sú að í staðinn fyrir bannvæðingu, refsivæðingu, refsivöndinn endalausa, gagnvart því sem sumir kjósa að kalla sjúkdóm en aðrir kjósa að kalla viðbrögð við áföllum eða tengslaleysi við samfélagið — viðhorfið gagnvart því og viðbrögðin gagnvart því eigi ekki að vera þau að fjarlægja fólk úr samfélaginu eða aftengja það enn frekar frá samfélaginu, refsa því fyrir hluti sem sumir vilja meina að það hafi bara enga stjórn á heldur þess í stað að fókusa á mannúðleg skaðaminnkandi viðhorf og úrræði sem eru til þess fallin að hjálpa þeim sem ekki geta haft stjórn á sinni neyslu til að komast aftur á góðan stað í lífinu, hvort sem það vill halda áfram neyslu eða getur ekki hætt neyslu eður ei.

Út á það gengur hugmyndafræði skaðaminnkunar. Mér hefur fundist mjög ánægjulegt að sjá á sundanförnum árum hvernig hugmyndafræði skaðaminnkunar, þ.e. sú hugmynd að aðstoða fólk þar sem það er statt, að gera það ekki að skilyrði að viðkomandi hætti neyslunni heldur að vinna að því, með mannúð að leiðarljósi, að minnka sem helst skaðann sem hlýst af neyslunni, hefur náð fótfestu. Það er inntakið í frumvarpi um neyslurými. Til að svo megi verða á töluvert stærri skala í okkar samfélagi er það einmitt hárrétt niðurstaða hv. velferðarnefndar að afglæpavæða verði neysluskammta ólöglegra vímuefna. Öðruvísi gengur þetta ekki upp, virðulegur forseti, og þess vegna er þetta mjög ánægjuleg afstaða sem ég vona að komi fyrir Alþingi strax í haust.

Ég vildi af þessu tilefni segja hversu ánægjulegt mér finnst einmitt hvernig umræðan og viðhorfið til fólks sem notar vímuefni, hvort sem er í æð eins og t.d. þetta frumvarp um neyslurými snýr einna helst að, réttindi þess fólks til bestu mögulegu heilsu, réttindi til frelsis og mannvirðingar, hefur þróast á þeim örfáu árum sem Píratar hafa setið á Alþingi Íslendinga, þ.e. frá árinu 2013 þegar fyrst komu fram tillögur þess efnis að skoða bæri hvort afglæpavæða ætti neysluskammta vímuefna.

Ég vil meina, virðulegi forseti, við séum komin mjög langt í því að skoða hvernig væri best að því staðið, hvaða kosti og galla er í því að finna og hvernig við getum best fundið út úr því í okkar lagakerfi að standa að því. Ég vil af því tilefni minnast á að það eru margir aðrir kostir við að afglæpavæða neysluskammta og þeir snúa t.d. að unga fólkinu okkar sem getur þá með miklu öruggari hætti nálgast upplýsingar, aðstoð og þjónustu. Það þarf ekki að vera hrætt við að lögreglan sé aldeilis enginn vinur þeirra ef það hleypur á sig þegar kemur að neyslu vímuefna.

Við gætum komið af stað töluvert betri skaðaminnkunaráformum á tónlistarhátíðum og öðrum stöðum þar sem er líklegt að ungmenni geri mistök eða fái vond vímuefni til neyslu sem valda því að þau þurfi aðstoðar við. Það mun minnka óttann sem þessi ungmenni munu búa við að leita til lögreglu eða sjúkraflutningamanna eftir aðstoð og þar með minnka þá hættu sem þau standa frammi fyrir kjósi þau eða ákveði þau að fikta eins og stundum er sagt.

Þetta er einn af mörgum kostum en þar fyrir utan er rétt að árétta að fólk sem notar vímuefni er líka fólk og eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, herra forseti, er stríðið gegn vímuefnum, eins og það hefur verið kallað, stríð gegn fólki og það er tapað. Þetta er fyrsta skrefið í áttina að því að hætta þessu bulli. Það hefur ekki skilað okkur einum einasta árangri, ekki öðru en eymd og volæði þeirra sem fyrir því verða. Við sjáum það um allan heim að vímuefnalöggjöfinni er beitt sérstaklega hart gegn þjóðfélagshópum sem almennt eru í verri stöðu, gegn minnihlutahópum. Við sjáum líka að langstærstur hluti þeirra sem eru fangelsaðir um allan heim fyrir vímuefnalögbrot er fangelsaður einmitt fyrir vörslu fíkniefna og fyrir brot sem ekki fela í sér nokkurs konar ofbeldi. Við sjáum það líka að oft eru fíkniefnalagabrot dæmd töluvert harðar en töluvert grimmari glæpir að mínu viti, þ.e. fíkniefnalagabrot sem tengjast ekki neinu ofbeldi á neinn hátt og jafnvel gegn svokölluðum burðardýrum. Þau fá refsingar sem eru kannski margfalt á við það sem t.d. verstu brotamenn í kynferðisbrotamálum fá og þá sjáum við að burðardýr fá töluvert þyngri refsingar. Ég held að þetta sé arfleifð af bannstefnutímanum sem ég vona svo sannarlega að sé að líða undir lok og það fyllir mig bjartsýni, virðulegur forseti, að sjá alla hv. velferðarnefnd á þessu máli, sjá þetta framsýna viðhorf hennar og sjá að eitt af okkar helstu áherslumálum í Pírötum um mannúðarstefnu, afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna, hafi fengið svona góðan hljómgrunn á Alþingi Íslendinga. Það gleður mig sannarlega, herra forseti.