149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til umferðarlaga og ýmsar breytingar sem þar má finna. Mig langaði til að ræða aðeins þá breytingartillögu sem lögð var fram í dag af hv. þm. og nefndarmanni Bergþóri Ólasyni, breytingartillögu við 50. gr. frumvarpsins. Þar er um að ræða bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Í núgildandi lögum er bannað að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna hafi merki um slíka neyslu mælst í blóði og/eða þvagi. Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar þess efnis að, eins og stendur í 2. mgr. 50. gr. „mælist ávana- og fíkniefni skv. 1. mgr. í blóði ökumanns telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.“

Það er með öðrum orðum, eins og fram hefur komið í dag og ég vil árétta, verið að taka út mælinguna í þvagi. Við þetta virðist hv. þingmaður vera ósáttur og vill bæta aftur við að „mælist ávana- eða fíkniefni í þvagi ökumanns sé viðkomandi óheimilt að stjórna ökutæki“.

Af því tilefni langar mig aðeins að fara fyrst í það sem kemur fram í greinargerð með umræddu ákvæði. Það er einmitt verið að leggja til að gerð verði sú grundvallarbreyting frá gildandi ákvæði að mæling á mögulegu magni ávana- og fíkniefna, sem er grundvöllur að ályktun um að ökumaður teljist undir áhrifum efna og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, fari aðeins fram á blóði ökumanns. Þannig verði felld niður þvagmælingin sem hefur ríkt hér undanfarið og er á því byggt að þegar ávana- og fíkniefni, eða óvirkt umbrotsefni þess, mælist aðeins í þvagi, ekki blóði, eingöngu í þvagi, sé almennt í reynd rétt að álykta að slíks efnis hafi verið neytt en að það sé ekki lengur í því magni eða það nýlega að ökumaðurinn sé undir einhverjum áhrifum efnisins og teljist óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega.

Þetta hlýtur að vera grundvallaratriði þegar kemur að refsingu fyrir að stjórna ökutæki eða einhvers konar þvingunarráðstöfunum eins og lagt er til í breytingartillögunni, að viðkomandi sé óheimilt að stjórna ökutækinu, að viðkomandi sé óhæfur til að stjórna ökutækinu. Því að það geta auðvitað komið upp ýmiss konar atvik sem gera okkur minna hæf til að stjórna ökutæki.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að viðkomandi einstaklingur, ökumaður, geti bara sjálfum sér um kennt að hafa einhvern tímann á síðustu mánuðum mögulega neytt einhverra fíkniefna og auðvitað væri best ef við myndum bara öll sleppa því að neyta áfengis eða annarra vímuefna, eða yfirleitt aka hratt eða aka syfjuð, því að stundum erum við syfjuð og völdum sjálfum okkur og öðrum heilsutjóni. En það er ekki svoleiðis. Við mannfólkið erum alls konar og gerum ýmislegt. En hér erum við að fjalla um hvort eigi að refsa eða beita öðrum þvingunarráðstöfunum þegar fyrir liggur í máli fjölmargra sérfræðinga sem fjallað hafa um málið að viðkomandi ökumaður, hvers þvag reynist vera með einhverjum merkjum neyslu, er ekki óhæfur til aksturs.

Fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd komu fjölmargir gestir, þar á meðal Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, Kristín Ólafsdóttir og Kristín Magnúsdóttir, frá lyfja- og eiturefnadeild Háskóla Íslands, sem er sú deild sem fæst við allar þessar rannsóknir og mælingar frá lögregluembættunum þegar ökumenn eru teknir. Það kom mjög skýrt fram í máli þessara sómakvenna að mæling á umbroti efna í þvagi sé villandi og að styrkur í þvagi hafi ekki áhrif á hæfnina, þ.e. að þegar vímuefni mælist eingöngu í þvagi en ekki blóði — svo það sé algerlega tekið fram er verið að tala um þegar ekkert mælist í blóði, ekki neitt, en eitthvað mælist í þvagi — sé ljóst að svo langt er liðið frá neyslu efnisins að það hafi ekki áhrif á hæfni einstaklingsins til að aka bifreið eða stjórna ökutækinu örugglega. Og hvers vegna ættum við að beita þvingunarráðstöfunum þegar svo er?

Nú skal tekið fram að ef lögreglan hefur minnsta grun um eitthvað slíkt, ef það mælist í þvagi, er búið að fara með viðkomandi í blóðprufu. Þannig að það er löngu búið að stöðva för viðkomandi ökumanns. En ef í ljós kemur að það er ekkert í blóði á ekki að þurfa að halda áfram viðlíka þvingunaraðgerðum og að stöðva áfram förina.

Þannig að ég sé eiginlega ekki neina ástæður fyrir því af hverju á að fara að leggja til breytingar á þessu frumvarpi því í rauninni er þetta frumvarp mikil réttarbót.

Aðeins varðandi hjálmaskylduna. Það var mjög mikið um það rætt inni í nefndinni hvort ætti að fara upp í 18 ár eða vera áfram í 15 árum vegna þess að 18 ára væri sjálfræðisaldurinn. Ástæðan fyrir því að það var talað um 16 ár sem, varð niðurstaða nefndarinnar, var einfaldlega til þess að senda skýr skilaboð til grunnskólabarna. Þau eru í grunnskóla þangað til á 16. ári. Þó að sum börn verði 16 ára í desember og önnur í janúar er það nú svo með fjölmörg önnur réttindi, svo sem ökupróf eða kosningarrétt eða hvaðeina, að þau miðast við dagatalið en ekki árið sem aldurinn næst. Það verður bara að hafa það. En það var talað um það, til áréttingar, að þetta væru góð skilaboð, að efsti bekkur grunnskóla mætti ekki bara sleppa því einn og sér, bara tíundi bekkurinn og þá færu krakkarnir að hætta að nota hjálm. Það væru svolítið sérstök skilaboð til ungs fólks á Íslandi.