149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[16:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var eitthvert undarlegasta andsvar sem ég hef lent í á ævinni. (Gripið fram í.) Hvaða rugl er þetta? Ég mæli ekki gegn því ef menn eru óhæfir til aksturs eða hættulegir í akstri að það sé bannað. Ég geri bara kröfu um að mér sé sýnt fram á að viðkomandi sé óhæfur, ekki bara af því að ég hafi eitthvert óþol gegn fíkniefnaneyslu eða óþol gegn áfengi. Þetta er ekki flóknara en það. Auðvitað bönnum við og höfum viðurlög ef við setjum fólk í hættu. Við höfum refsilög og hegningarlög, það er enginn ágreiningur um það, en ég ætla ekki að skipta mér af því hvað fólk er að gera, hvort það neytir fíkniefna í frítíma sínum, áfengis eða annars. Ég ætla ekki að banna því að aka eða hjóla eða gera eitthvað nema það hafi ekki hæfni til þess og sé þar með skaðlegt öðrum. Einfaldara svar er ekki hægt að finna.