149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur svarið. Til að svara síðustu spurningunni fyrst er ég almennt talsmaður lækkaðra skatta og einfaldari en hækkaðra. Hv. þingmaður spurði mig hvort — hún verður eiginlega endurtaka spurninguna. (RBB: … hvort flugfargjöld hefðu verið of lág.) Já, akkúrat. Takk fyrir góða spurningu. Ég held nefnilega að þau hafi verið of lág árum saman en það hefur líka sést í rekstri flugfélaga. Ég held því að ef stífir grænir umhverfisskattar ættu að leggjast ofan á rekstrakostnað þessara félaga væri í rauninni þörf fyrir tvöfalda hækkun, annars vegar á móti grænu sköttunum og hins vegar til að stilla af rekstur félaga sem virðist hafa verið býsna brokkgengur undanfarin ár.

Nú er ég kominn í að svara og ég á að vera að spyrja. Þetta er skrýtin staða að vinna sig í. (Forseti hringir.) En varðandi spurningu þingmannsins fær hún bara frelsi til að fabúlera eitthvað (Forseti hringir.) um hvað ég hefði ætlað að segja hefði ég haft meiri tíma.