149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að endurtaka heldur taka undir ástæðuna sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir áðan. Ég vil líka nefna að eitt af stóru öryggismálunum hvað varðar hjólreiðar er að þær verði almennar, að fólk hjóli og að umferðin sé vön því að hjól séu úti um allt. Maður hefur tekið eftir því á Íslandi, sér í lagi ef maður hefur ferðast um í hjólamenningu eins og Hollandi, Danmörku og víðar, að Íslendingar almennt eru ekki vanir mjög mikilli hjólamenningu. Það er það sem við þurfum að breyta. Það er stærsta öryggisatriðið. Þegar allir eru vanir því að hjólreiðamenn séu úti um allt eykst öryggið, hluti af því er að gera ekki óþarfakröfur á hjólreiðamenn, hvorki unga né aldna, umfram það sem nauðsyn er. Þess vegna þarf að sýna fram á að nauðsyn sé á þessu, í það minnsta að það sé gagnlegt og í það minnsta á að bíða þar til gögnin eru komin fram eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Því greiði ég atkvæði gegn tillögunni.