149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og fyrir að kynna þetta nefndarálit fyrir okkur hér. Ég verð að viðurkenna að ég hafði svo sem ekki sökkt mér mikið ofan í þetta mál en hef þó velt fyrir mér nokkrum atriðum. Mér heyrðist þingmaðurinn nefna að verið væri að horfa til Vatnajökulsþjóðgarðs varðandi gjaldtökuna. Þá er kveðið á um hana í sérstakri reglugerð sem sett er af yfirstjórn þjóðgarðsins. Það slær mig svolítið ef við erum með eina stjórn og reglugerð og leyfisveitingar og slíkt á Þingvöllum og aðra á Vatnajökli, kannski enn aðra á Snæfellsnesi og svo á fleiri stöðum eftir því sem þjóðgörðum fjölgar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið rætt á einhverjum tímapunkti að setja hreinlega almennar reglur um leyfisveitingar í þessa átt, þ.e. varðandi atvinnustarfsemi innan þjóðgarða, varðandi gjaldtöku o.s.frv. Ég held einhvern veginn að betur færi á því að þetta væri almenns eðlis, að í raun giltu sömu reglur þó svo að færa megi rök fyrir því að svo sé með því að apa þetta eftir því sem fyrir er. Þá er ég ekki að segja að það sé endilega eitthvað slæmt að apa þetta eftir, ég er bara að segja að mögulega væri betra að hafa þetta almenna reglu sem næði yfir alla þá þjóðgarða sem við eigum og vonandi fjölgum við þeim að einhverju leyti.