149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi, enda standa að frumvarpinu allir nefndarmenn í Þingvallanefnd.

Þetta frumvarp — ég fer nánar í einstök atriði þess á eftir — kemur til vegna stórkostlegrar aukningar ferðamanna á Þingvöllum og eðlilegs áhuga aðila í ferðaþjónustu á að reka ýmiss konar starfsemi í tengslum við komu ferðamanna inn á svæðið. Nærtækast er að nefna köfun í Silfru.

Aukning ferðamanna á Þingvöllum hefur verið gífurlega mikil. Maður man þá tíð hér áður fyrr að unnt var að fara á Þingvelli, njóta þar einveru í skjóli fallegra lauta í hrauninu. Maður gat fundið tjaldsvæði einhvers staðar úti í hrauni án þess að vera innan um mikið af fólki. En í dag er þetta þannig að yfir hádaginn í góðu veðri og jafnvel á veturna eru þarna hundruð eða jafnvel þúsundir af ferðamönnum í hvert skipti að njóta þeirrar einstöku náttúrufegurðar sem þarna er að finna.

Mikilvægi Þingvalla er mjög mikið í hugum og hjörtum flestra Íslendinga, enda er þarna hægt að finna söguna. Þarna hafa orðið stærstu stundir íslenskrar sögu. Þarna er upphaf löggjafarsamkundunnar sem við núna störfum á hér á Alþingi. Þarna voru kveðnir upp dómar og þeim framfylgt. Þarna er náttúran í öllu sínu veldi, hraun og mosar, runnar og gróður, gjár og hellar, vatn. Þarna er hægt að sjá eldvirknina í sinni tærustu mynd og hvernig hún hefur mótað landið. Þarna er hægt að sjá jarðsig og gróður, þennan gamla, góða íslenska gróður. Þingvellir eru vagga þjóðarinnar. Þetta er perla Íslands og snertir alla Íslendinga hvernig með hana er farið.

Þetta frumvarp boðar kannski ekki stórtækar breytingar — en þó. Því er ætlað að ná utan um starfsemi á Þingvöllum og setja undir Þingvallanefnd, þ.e. að þarna geti enginn rekið atvinnutengda starfsemi án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Það er í stuttu máli efni þessa frumvarps. Afskaplega eðlilegt er vegna sögu staðarins og mikilvægis hans fyrir fullveldi og lýðveldi og lýðveldishugsun allra Íslendinga að þarna sé haldið vel utan um og staðurinn sé verndaður eins og unnt er. Það er einmitt þess vegna sem við erum með sérstaka nefnd, Þingvallanefnd, sem hefur yfirumsjón með þessum helgistað allra Íslendinga.

Upphaf staðarins sem sögustaðar fyrir Íslendinga var auðvitað stofnun Alþingis sem átti sér stað á Þingvöllum árið 930. Áður en það gerðist komu upp hugmyndir um að stofna allsherjarþing fyrir Ísland og fyrirmyndin var sótt til Noregs. Þangað var sendur erindreki á vegum þeirra sem mest kvað að hér á Íslandi, goðanna. Maður að nafni Úlfljótur var sendur til Noregs og kynnti sér málin og lögin í Gulaþingi í Noregi. Kom svo til baka eftir að hafa lært þau, eins og sagan segir, utan að og fljótlega eftir það, sumarið 930, var Alþingi stofnað, allsherjarþing fyrir Ísland, með þátttöku allra helstu höfðingjanna. Menn völdu sér þennan stað, herra forseti, Bláskóga, sem nú heita Þingvellir. Þar er að finna upphaf þjóðríkis á Íslandi.

Og af hverju var þessi staður valinn? Sumir segja að það hafi verið vegna áhrifa þeirra höfðingja sem frá Ingólfi Arnarsyni voru komnir og bjuggu ekki langt frá, hinum megin við heiðina, og voru þá þegar búnir að stofna sitt héraðsþing, Kjalarnesþing, og fannst náttúrlega hentugt að hafa allsherjarþingið í nálægð við sig, en einnig vegna þess að allar leiðir lágu þarna um, frá Suðurlandi, Austurlandi, yfir Kjöl af Norðurlandi og frá Vesturlandi og Vestfjörðum suður yfir heiðar á Þingvöll. Má til sanns vegar færa að það hafi verið vel til fundið að hafa staðinn þarna og varla hægt að finna betri stað ef menn vilja stofna slíkt þing. Staðurinn átti sér langa sögu í tengslum við Alþingi því Alþingi var starfrækt þarna allar götur til ársins 1800 þegar það var lagt niður um stundarsakir.

En margir aðrir merkir atburðir gerðust á Þingvöllum, ekki bara stofnun allsherjarþings heldur fór þar stuttu síðar, mannsaldri síðar, kristnitakan fram árið 1000. Sagan segir að hraun hafði runnið á Hellisheiði einmitt í þann mund þegar Alþingi átti að halda þetta sumar. Hraunið mun hafa runnið niður þar sem Þrengslavegurinn kemur núna, niður af heiðinni ofan í Ölfusið, í brekkunni þar, og stefnt á bæ eins kristins höfðingja. Þegar menn riðu til þings og sáu eldvirknina og hraunið renna töldu heiðnir menn að þetta væri nú óbrigðult merki um hvað goðin og guðirnir hefðu reiðst fyrirætlunum hinna kristnu, að kristna Íslendinga. Áður hafði Ólafur Tryggvason konungur sent hingað sína erindreka í tilraunum erlendra aðila til að skipta sér af innanríkismálum hér innan lands. Hann sendi hingað Þangbrand prest. Árangur af hans för varð ekki mjög mikill, en þó, hann kristnaði einhverja en þurfti að hverfa á braut.

Ég var komin þar við sögu að heiðnir menn töldu eldsumbrot á Hellisheiðinni vera óræk merki þess að guðirnir reiddust fyrirætlunum hinna kristnu ákaflega mikið. Þá hafi Snorri Þorgrímsson á Helgafelli sagt á Þingvöllum: „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið er nú stöndum vér á?“ Þetta þótti sýna mikla skynsemi. Hvaða stóratburðir gætu það nú verið sem guðirnir hefðu reiðst þegar allt Þingvallahraun rann þar einhvern tímann í fyrndinni? Þorgeir goði Þorkelsson, leiðsögumaður, var í málsvari fyrir heiðingja og tilnefndu kristnir Hall Þorsteinsson á Þvottá, Síðu-Hall, sem sinn málsvara. Hallur samdi við Þorgeir Ljósvetningagoða um að hann skyldi segja upp lög sem allir gætu fellt sig við. Hann skyldi sem sagt komast að niðurstöðu í þessu máli. Vel að merkja var Þorgeir málsvari fyrir heiðingjana svokölluðu, þ.e. ásatrúarmenn. Og allir þekkja söguna af því þegar Þorgeir kom í búðir, lagðist niður, breiddi feld sinn yfir sig og hvíldi þar allan þann dag og nóttina á eftir og kvað ekki orð. Morguninn eftir settist Þorgeir upp og bauð mönnum að ganga til Lögbergs og þar hóf hann upp raust sína og kvað: „En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“ Þorgeir kvað þar lög að menn skyldu taka kristni en áfram yrði leyft að blóta leynilega, bera út börn og éta hrossakjöt, sem mér finnst nú vera frumskilyrði að mega snæða enn þann dag í dag.

Ef við höldum áfram þar sem frá var horfið eiga Þingvellir sér djúpar rætur í sögu Íslendinga eins og ég hef lítillega farið yfir. En í gegnum aldirnar hafa menn hist þarna og þetta hefur verið staður sameiningar, eins og sagan um kristnitökuna virkilega ber með sér. Skynsömustu menn fundu leið út úr þeim vandræðum sem menn horfðust í augu við þar sem þjóðin skiptist raunverulega í tvær fylkingar, hina heiðnu og hina kristnu. Þess vegna ber að umgangast þjóðgarðinn og helgireitinn Lögberg og svæðið þar í kring af fyllstu varúð og aðgát og stíga varlega til jarðar. Þetta frumvarp gengur út á að óheimilt sé að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings við Þingvallanefnd. Í þessum samningi munu vera sett þau skilyrði sem setja þarf starfseminni. Auðvitað er þar efst á blaði ef menn eiga að fá slíka samninga, eins og t.d. um köfun, að þeir hugi að öryggi fyrst og fremst. Það séu gerðir samningar við þá sem hafa reynslu og þekkingu og ganga um af þeirri virðingu og þekkingu sem nauðsynleg er á þessum stað. Slíkir samningar yrðu skilyrtir að því leytinu að tekið yrði fullt tillit til verndarmarkmiða um þjóðgarðinn.

Einnig er í frumvarpinu ákvæði um að Þingvallanefnd geti tekið gjöld vegna þessara samninga. Í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur einmitt fram athugasemd við að það skorti skýrleika varðandi gjaldtökuheimildina í frumvarpinu, en að það gangi út á að gjaldið skuli standa undir kostnaði við veitingu leyfisins, umsjón og eftirlit við gerð samninga og umsýslu af hálfu þjóðgarðsyfirvalda. Gjaldið verði hóflegt með tilliti til þessa. Fyrir utan þessa samninga er einnig í frumvarpinu ákvæði um að Þingvallanefnd skuli móta atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn, þ.e. hvers lags atvinnustarfsemi yrði heimil innan þjóðgarðsins. Það er hægt að ímynda sér að aðilar vilji reka þarna alls kyns sölustarfsemi, gönguferðir og kynnisferðir og skoðunarferðir ýmsar, bátsferðir, svo ég nefni eitthvað sem kemur upp í hugann, auk þeirrar köfunar sem þarna hefur verið stunduð af miklum og síauknum krafti undanfarin ár. Það má nefna að köfunin hefur aukist mjög mikið síðustu ár. Þingvallanefnd lét rannsaka þetta núna fyrir nokkrum mánuðum og niðurstaða fagaðila um álag á Silfru var að köfunarstarfsemin væri ekki komin upp að þeim mörkum sem má kalla þolmörk en þó væri ekki langt í það. Þannig að það er mjög mikilvægt að Þingvallanefnd móti þessa stefnu, þ.e. hvers lags atvinnustarfsemi og í hve miklum mæli og hvar og hvernig hún skuli stunduð og hvaða skilyrði skulu sett fyrir slíkri starfsemi.

Í frumvarpinu er einnig að finna heimild fyrir Þingvallanefnd til að setja um atvinnustefnuna reglugerð þar sem er mælt nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæðinu. Í lok greinarinnar er ákvæði um að þetta ákvæði gangi framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afréttar. Hvað þýðir það, að þetta gangi framar? Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að rökin fyrir því séu að svo lítill hluti þjóðgarðsins sé innan þjóðlendu og það sé fremur til einföldunar að ekki þurfi að leita leyfis sveitarstjórna eins og áskilið er í lögum um þjóðlendur og Þingvallanefndar til að nýta land og landsréttindi innan þjóðgarðsins heldur verði það alfarið undir stjórn Þingvallanefndar. Það hefur verið deilt örlítið á starfsemina að því leytinu til að það sé ekki aðkoma sveitarstjórna að Þingvallanefnd. Ég get upplýst um mína skoðun á því. Ég tel að í framtíðinni sé æskilegt að í Þingvallanefnd verði aðili frá sveitarstjórn, þ.e. í þessu tilviki Bláskógabyggð sem á landið á Þingvöllum. Þeir eigi aðila í nefndinni. Ég tel það til framfara og æskilegt fyrir samvinnu og samstarf á svæðinu,

Það má líka ræða hversu miklum fjölda ferðamanna eigi yfirleitt að beina á ferðamannastaði eins og Þingvelli. Hvað þolir staðurinn mikið af ferðamönnum? Hvert á að beina þeim? Í dag er þetta þannig að ferðamenn ganga helstu leiðir sem eru ágætlega lagðar stígum. Það er sífellt verið að vinna að því að auka við þá og þjónustuaukningin hefur verið mikil. En það má hugsa sér að ef ferðamannastraumurinn eykst mikið frá því sem nú er taki menn að spyrja: Hversu mikið á að heimila af ferðamönnum á viðkvæmum svæðum eins og Þingvellir sannarlega eru?