149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019--2022.

771. mál
[10:55]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fer yfir nefndarálit um þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022 frá velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta og umsagnir bárust m.a. frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, félagsvísindasviði Háskóla Íslands, fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökunum Þroskahjálp, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanni barna.

Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar er lögð fram af félags- og barnamálaráðherra í samræmi við 5. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. þeirra laga ber félagsmálaráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og samkvæmt 3. mgr. 5. gr. leggur félags- og barnamálaráðherra fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Gert er ráð fyrir því að félagsmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga skuli vinna samkvæmt framkvæmdaáætluninni með það að markmiði að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.

Umsagnir um tillöguna voru að meginstefnu jákvæðar þótt fram hefðu komið ábendingar um atriði sem taka hefði mátt inn í stefnuna með afdráttarlausum hætti. Helst var því fagnað að þær framkvæmdir sem mælt er fyrir um væru kostnaðargreindar og raunhæfar.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að framkvæmdaáætlunin væri liður í heildarendurskoðun á málefnum barna, áætlunin væri ekki tæmandi um allar þær aðgerðir sem ráðist yrði í á næstu árum heldur væri þar fyrst og fremst að finna útlistun á aðgerðum sem ráðist yrði í til að efla hlutverk og ímynd Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda. Líkt og rakið er í tillögunni er unnið að því að skapa heildarsýn í málefnum barna, auk þess sem þverpólitísk þingmannanefnd vinnur að endurskoðun barnaverndarlaga.

Fram kom að lögð væri sérstök áhersla á foreldrafærniþjálfun, snemmtæka íhlutun, stuðning við börn á fósturheimilum, auk þess sem lagt væri upp með að meta með skýrari hætti árangur meðferðarúrræða og tryggja þannig eftirfylgni.

Nefndin áréttar að það skref sem tekið er með framkvæmdaáætluninni er eitt hið fyrsta sem tekið er í átt að nýrri heildarsýn í málefnum barna. Nefndin telur að þótt bent hafi verið á að ýmis atriði hafi ekki verið tekin í stefnuna muni þau koma til skoðunar á síðari stigum framkvæmdarinnar, t.d. við þá heildarendurskoðun barnaverndarlöggjafar sem unnið er að og gert er ráð fyrir í tillögunni. Þá telur nefndin þær aðgerðir sem ráðist verði í til að auka árangursmat og eftirfylgni í barnavernd vera forsendu þess að heildarsýnin náist. Nefndin telur því ekki ástæðu til þess að hefja efnislega endurskoðun á tilteknum þáttum framkvæmdaáætlunarinnar en leggur áherslu á að endurskoðun hennar verði haldið áfram innan ráðuneytisins í ljósi þeirrar reynslu sem af henni hlýst.

Í umsögnum frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og frá Landssamtökunum Þroskahjálp var bent á að skortur hafi verið á aðkomu sérfræðinga í málefnum fatlaðs fólks og að ekki verði séð af tillögunni að tekið væri sérstakt tillit til viðkvæmrar stöðu fatlaðra barna. Bent var á að fötluð börn væru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og hætta á að þau yrðu fyrir meiri mismunun en önnur börn. Bent var á að álag á foreldra fatlaðra barna væri oft mikið, auk þess sem margir þeirra glímdu sjálfir við frávik í taugaþroska.

Nefndin tekur undir þessa gagnrýni. Að mati nefndarinnar hefði farið betur á því að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks við þá stefnumótun sem hér liggur fyrir. Þá hefði að mati nefndarinnar mátt fjalla sérstaklega um framkvæmdir í málefnum fatlaðra barna. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytisins að bæta sérstaklega úr þessu samráðsleysi í samvinnu við aðra framkvæmdaraðila áætlunarinnar þegar ráðist verður í þær aðgerðir sem áætlunin mælir fyrir um. Telur nefndin sérstaklega mikilvægt að tryggt verði samráð við málsvara fatlaðs fólks við framkvæmd A-liðar áætlunarinnar um samstarf og heildarsýn í málefnum barna og öðrum liðum þar sem gert er ráð fyrir aðkomu frekari samstarfsaðila. Einnig leggur nefndin áherslu á að hugað verði að stuðningi við fötluð börn í fóstri og að stuðlað verði að betri fræðslu til fósturforeldra um fötlun barna.

Þá var bent á að á nokkrum stöðum í tillögunni sjálfri væri að finna ýmsar skýringar og texta sem fælu ekki í sér framkvæmdir í sjálfu sér. Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem fella þau atriði úr tillögunni sjálfri, enda er fullnægjandi grein gerð fyrir þeim í greinargerðinni. Þá segir í 1. málslið 1. mgr. A-liðar og í 1. málslið 1. mgr. 4. töluliðar E-liðar að stefnt verði að tilteknum áföngum. Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á þessum liðum til að undirstrika að aðgerðir séu ekki eingöngu stefnumið heldur áfangar sem sérstaklega verði unnið að því að ná.

Að lokum bendir nefndin á að í tillögunni er gert ráð fyrir því að stýrihópur Stjórnarráðsins fari yfir innleiðingaráætlun framkvæmdaáætlunarinnar í fyrsta sinn 1. júní 2019. Nefndin leggur til breytingu þess efnis að miðað verði við 1. október 2019, enda er 1. júní einfaldlega liðinn.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna um fastanefndir Alþingis. Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Halldóra Mogensen formaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Vilhjálmur Árnason eins og fyrr kom fram.