149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[11:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hér er verið að fást við þetta stóra og mikilvæga viðfangsefni með því miður allt of hefðbundnum aðferðum, þ.e. að búa til meiri umgjörð, meiri stjórnsýslu, meira regluverk í kringum hlutina án þess að á nokkurn hátt sé sýnt fram á að það muni skila árangri. Því miður hefur nálgun sem þessi allt of oft skilað engum árangri og jafnvel leitt til neikvæðra afleiðinga hvað varðar loftslagsmálin. Það kom nýverið fram í Bretlandi að fjármálaráðherra þess lands lýsti því yfir að áformaðar aðgerðir hans eigin stjórnvalda í loftslagsmálum myndu kosta 1.000 milljarða punda án þess að menn sjái í rauninni fram á hvaða árangri þær muni skila. Það er tímabært að fara að nálgast þetta mikilvæga viðfangsefni af meiri skynsemishyggju, með lausnum sem raunverulega virka. Það er ekkert sem bendir til þess að sú nálgun sem ríkisstjórnin kynnir hér muni skila umtalsverðum árangri.