149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og öðrum sem hafa mælt á þann veg að það væri sæmst að haga dagskrá þingsins með öðrum hætti en hér hefur verið boðað. Við eigum von á aufúsugesti og það er að sönnu rétt að þetta mál sem er á dagskrá hefur fengið mikla umræðu og mikla meðferð en það er einu sinni þannig að það eru þýðingarmikil atriði í málinu sem standa út af, eins og kom reyndar glögglega fram á fundi hv. nefndar núna í hádeginu. Þetta mál hentar í raun og sanni ekki sem mál á dagskránni þegar við eigum von á viðburði af því tagi sem við eigum von á hérna á eftir og er mikið ánægjuefni og tilhlökkunarefni. Þetta hentar ekki. Ég mælist til þess, frú forseti, að tekinn verði upp annar háttur.