149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir samstarfið. Það var mjög mikilvægt og dýrmætt. Ég þakka allri nefndinni fyrir að koma af miklum heiðarleika og miklum krafti inn í þetta mikilvæga starf því við erum að móta atvinnugrein til framtíðar og þá þurfum við að setja fram kröfur í þágu samfélags, í þágu umhverfis og náttúruverndar, þannig að við getum byggt upp atvinnugrein sem þessa til lengri en ekki skemmri tíma. Við erum búin að brenna okkur of oft á slíkum aðferðum. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa aðkomu og fyrir að laga það sem þurfti að laga og það þyrfti náttúrlega að gera miklu meira. Ég geri mér líka grein fyrir því að hv. þingmaður er í erfiðleikum hvað þetta varðar. — Tíu sekúndur eftir.

Fyrri spurningin er um breytingartillögu nefndarinnar. Ég vil annars vegar spyrja hvernig í ósköpunum þetta komst í gegnum ríkisstjórn og síðan þingflokk Vinstri grænna, þ.e. án aðkomu hæstv. umhverfisráðherra að samráðsnefndinni. Það er verið að laga það núna. En hvernig gat það gerst að þetta fór í gegnum ríkisstjórn og þingflokka svona? (Forseti hringir.)

Og af hverju er nefndinni ætlað að taka á áhættumatinu sem (Forseti hringir.) er lykillinn og kjarninn í því að við getum byggt upp trúverðuga atvinnugrein til lengri tíma? (Forseti hringir.) Af hverju á nefndin að fara yfir áhættumatið, sem að mínu mati er verkefni vísindamanna?