149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er gott að heyra að hv. þingmaður hefur upplifað þá vinnu sem verið hefur í nefndinni þannig að menn væru að bregðast málefnalega við þeim veruleika sem þessir dómar sýndu fram á að við þyrftum að bregðast við og gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Það væri ekki gott ef við værum ekki þar. Í öllu sem hefur farið fram í þessari vinnu erum við vissulega að reyna að mæta því að íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir breyttum veruleika með auknum innflutningi. Það er allt innan þeirra marka að við gerum sömu kröfu til íslensks landbúnaðar og erlendrar framleiðslu sem kemur hingað inn til landsins. Ég er bara ánægð með það. Auðvitað vilja þeir aðilar sem koma til með að flytja inn landbúnaðarvörur eðlilega að þetta taki gildi sem fyrst en ég hef samt þá tilfinningu að þeir muni sýna því ákveðinn skilning að þetta mál er þannig vaxið að menn þurfa líka aukið svigrúm til þess að vinna með þá þætti sem þarna eru undir varðandi viðbótartryggingar og annað sem við höfum heimild til að setja inn. Ég treysti því að sú samfélagslega ábyrgð sé ríkjandi hjá þessum aðilum að þeir horfi ekki í það þó að þarna sé seinkun um tvo mánuði á gildistöku. Ég er bara ánægð með að heyra að hv. þingmaður telur að við séum á réttri braut í þessum málum.