149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:54]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér meðan ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns hvort hv. þingmaður, sem vitnaði til umsagna sem sendar voru inn til nefndarinnar, geri sér ekki grein fyrir því að þær umsagnir sem var vitnað til voru sendar inn löngu áður en lokaniðurstaða frumvarpsins var ljós. Þeir sem hafa fylgst með málinu frá upphafi hljóta að hafa tekið eftir því að það hefur tekið gríðarlegum breytingum í meðförum nefndarinnar.

Ég ætla að ræða þingsályktunartillöguna á eftir og því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji frystiskylduna öflugri vörn gegn þeirri vá sem hann boðaði í sinni ræðu en sú aðgerðaáætlun sem liggur hér á borðinu. Það verður fróðlegt að fá svar við því.

Einnig vitnaði hann í ágætan mann, Sigurð Sigurðarson, og grein sem hann skrifaði í Bændablaðið. Ég held að því miður hafi svipað verið komið fyrir þeim ágæta manni og þeim sem stóð hér á undan mér í ræðustól, að þeir hafi hvorugur kynnt sér lokaniðurstöðuna sem er í þessu plaggi.