149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en ég get ekki þakkað honum fyrir að víkja að Sigurði Sigurðarsyni með þeim hætti sem hann gerði. Hann gjörþekkir auðvitað þetta mál og engin ástæða til að draga það í efa. Varðandi spurningu hv. þingmanns um frystiskyldu eða aðgerðaáætlun lít ég ekki þannig á að valið standi á milli þessara tveggja þátta. Það er nákvæmlega rétt sem segir í umsögn Landssambands kúabænda og er tekið upp í álit minni hlutans, að nauðsynlegt sé að ráðast í mótvægisaðgerðir, hvort sem frystiskyldan verður afnumin eða ekki. Það er auðvitað lykilatriði. Þetta mál hefur tekið miklum breytingum meðan nefndin vann að því. Mótvægisaðgerðirnar í frumvarpinu eins og það kom frá hæstv. ráðherra voru líklega einar 12, svo fjölgaði þeim í 15 og síðan í 17. Þetta er allt saman til bóta og þetta er stutt af okkar hálfu, alveg tvímælalaust. Spurningin er í mínum huga mjög einföld: Er óhætt að halda áfram með málið án þess að fyrir liggi tímasett áætlun og án þess að það liggi fyrir með óyggjandi hætti að fjármögnun þeirra aðgerða sem mótvægisáætlun gerir ráð fyrir sé fyllilega tryggð? Um það snýst málið.