149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur fundið sér hóp sem er undir það búinn að bera mestu byrðar sem leggja á á nú um stundir. Hópurinn með breiðu bökin er öryrkjar þessa lands. Það frumvarp sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, mætti sem best kalla 65 aura frumvarpið vegna þess að hér er gert ráð fyrir að í stað þess að skerða öryrkja um krónu á móti krónu skuli skerða þá um 65 aura á móti hverri krónu.

Svo virðist sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé eitthvað í nöp við öryrkja vegna þess að nú stöndum við hér um miðjan júní og erum að ræða enn frekari skerðingar en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Í því fyrra voru uppi áform um að leggja 4 milljarða kr. í það að hefja þá vegferð að taka krónu á móti krónu skerðinguna af. Í meðförum fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins var þessi tala lækkuð niður í 2,9 milljarða og okkur sem mótmæltum þessu á sínum tíma í desember var sagt að þetta væri ekkert mál vegna þess að þegar kæmi fram um örfáa mánuði yrði allt komið í lag milli öryrkja og ríkisstjórnarinnar og þetta fé yrði greitt tafarlaust.

Nú erum við um miðjan júní og ekkert er búið að gerast, nákvæmlega eins og allir gátu sagt sér að myndi fara. Það var nefnilega eitt skilyrði fyrir því að öryrkjar fengju þær bætur sem þeir eiga skildar og þeim ber, það að ríkisstjórnin heimtaði að þeir samþykktu upptöku starfsgetumats án þess að neitt lægi fyrir um hvernig ætti að tryggja þeim sem undirgengjust slíkt mat aðgang að vinnu við hæfi, þ.e. hlutastörfum, störfum sem hentuðu þeim sem hafa skerta starfsgetu. Ekkert slíkt liggur fyrir, ekki nema það að hæstv. félags- og barnamálaráðherra, eins og hann heitir núna, hafði komið hingað og skorað á vinnumarkaðinn að skapa aukinn fjölda hlutastarfa. Auðvitað á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi, herra forseti, og skapa þessi störf ef það á að verða von til þess að hægt sé að taka upp svokallað starfsgetumat. Áður en byrjað er að huga að því þarf að tryggja að til séu á hverjum tíma hlutastörf sem henta þeim sem hafa skerta starfsgetu.

Þetta hefur m.a. verið gert víða erlendis, í Þýskalandi, í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, með því móti að ríkið lögleiðir það að skapa og bjóða upp á á hverjum tíma að ákveðinn hluti þeirra starfa sem ríkið auglýsir sé fyrir fólk með skerta starfsgetu. Ef við hefðum ætlað að taka þessa hluti í réttri röð hefðum við byrjað á því að lögfesta það að ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki á almennum markaði byggju til vettvang til að auka framboð þessara starfa áður en starfsgetumati hefði verið hellt ofan í hálsmálið á öryrkjum. Það er í raun og veru búið að halda öryrkjum í nokkurs konar gíslingu með starfsgetumatið sem vopn. Og það er náttúrlega engin hemja, herra forseti, að koma þannig fram við fólk og þá sérstaklega það fólk sem stendur veikast og á erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér.

En þennan „andstæðing“ fann ríkisstjórnin og sækir mjög að þessum hópi. Það er ekki nóg með þetta, herra forseti, núna er þingið komið allnokkra daga fram yfir áætluð starfslok en það vill bara þannig til að það eru mál sem hafa fengið dálitla umræðu og hafa þess vegna dregið þingstörf ögn. Ég veit ekki hvar menn væru með ríkisfjármálaáætlun sem er ekki tilbúin og sem hefur ekki verið lögð fram. Ætli menn hefðu þá kallað þingið aftur saman ef það hefði hætt á þeim tíma sem áætlað var?

Í sjálfu sér getur ríkisstjórnin þakkað m.a. Miðflokknum fyrir að hafa haldið uppi nokkrum umræðum sem hafa orðið til þess að þinglok hafa dregist um örfáa daga, en í sjálfu sér ekki meitt þingstörfin að neinu leyti vegna þess að þær umræður fóru mest fram þegar hér var ekki reglulegur þingfundur og ég kannast ekki við að þær umræður hafi eiginlega truflað svefn nokkurs manns, nema þá helst þeirra sem stóðu í þeirri umræðu. Ég held að ríkisstjórnin ætti að vera frekar glöð yfir því að hafa fengið þennan gálgafrest til að leggja fram þessa fjármálaáætlun. Það er til vansa, herra forseti, að koma með hana korter fyrir þrjú þegar á að fara að ljúka þingstörfum og rumpa henni í gegnum þingið á núll einni, eins og við segjum, á engum tíma. Þetta eru engin vinnubrögð, herra forseti, en því miður eru þetta þó vinnubrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að koma í sífellu með stór álitamál sem á að böðla í gegnum þingið með engri umræðu, samanber það sem átti að gera með þriðja orkupakkanum en tókst ekki, menn ætluðu að böðla því máli í gegnum þingið án nokkurrar umræðu. Á sama hátt vænti ég þess að hér komi — ja, ég veit ekki hvenær, hvaða dagur er í dag? Föstudagur? Þá kemur fjármálaáætlun væntanlega ekki til umræðu fyrr en á þriðjudaginn. Ég trúi því að menn ætli bara að fá hana í gegn samdægurs, daginn eftir eða eitthvað slíkt.

Þetta er ekki boðlegt, herra forseti.

Eins er með þetta mál hér, 65 aura frumvarpið, að það kemur fram og fær litla sem enga umræðu. Hæstv. ráðherra fer undan í flæmingi og formaður fjárlaganefndar neitar því augljósa. Hann neitar því að í þeirri fjármálaáætlun sem aðeins hefur glitt í blasi við að frá upphaflegri fjármálaáætlun á að draga öryrkja um 8 milljarða kr. á næstu fjórum árum. Menn segja: Nei, þeir fá þetta samt. Hvenær þá? Það liggur ekki fyrir. Menn segja: Það á ekki að skerða neinn. En það var búið að gefa ádrátt um að 8 milljarðar kr. færu í þennan málaflokk á næstu fjórum árum og nú er búið að draga það til baka. Breiðu bökin eiga að bera kostnaðinn af því að síðasta fjármálaáætlun og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, nokkurra mánaða gömul, er ónýt. Það er ekki öryrkjum að kenna. Sá hópur sem hæstv. forsætisráðherra var alveg ákveðinn í fyrir líklega 24 mánuðum að væri alls ekki fær um að bíða eftir réttlæti stóð samt þarna. Sætin í ríkisstjórninni eru svo mjúk að viðmótið breyttist um leið og sest var í ríkisstjórn. Þá breyttist þetta í að nú geta öryrkjar vel beðið eftir réttlæti að mati ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti, þegar fólk sem hefur kynnt sig sem talsmenn og málsvara þeirra sem minnst hafa og veikast standa kemur nú fram við öryrkja á þennan hátt. Það er alveg ljóst og maður hefur heyrt og lesið ótal viðtöl, álit og greinar frá forystumönnum Öryrkjabandalagsins þar sem þeir segja farir sínar ekki sléttar af samvinnu, eða réttara sagt skorti á samvinnu, við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það kemur m.a. fram í umsögn þeirra um einmitt það frumvarp sem við erum að ræða núna. Þroskahjálp hefur líka talað á svipuðum nótum.

Það er engin hemja, herra forseti, að á sama tíma og nánast ekkert virðist gert til þess að koma böndum á svart hagkerfi, sem auglýsir sig sjálft opinberlega á hverjum einasta degi en er ekki hægt að taka á, er ekki hægt að bæta við mannskap og tækjum fyrir ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra sem þó hafa báðir sagt að hver starfsmaður sem þeir fengju núna, ekki alveg endalaust en upp að vissu marki, myndi væntanlega koma til baka með tíföld laun sín í formi innheimtra tekna ríkissjóðs.

Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að 1% innheimtubæting er 7 milljarðar. Ég geri ekki lítið úr því að innheimtuprósenta hjá ríkisskattstjóra og tollstjóra sé gríðarlega há. Hér á að skerða öryrkja fjögur ár fram í tímann um 8 milljarða. Það er þegar búið að hirða um 1.100 milljónir sem var gert um síðustu áramót. Menn segja að þetta sé gert af því að ekki séu til peningar. En menn virðast ekki hafa áhuga á því að innheimta þegar álögð gjöld. Og nú er það skýrt, herra forseti, að ég er ekki að tala um nýja skattheimtu, það höfum við Miðflokksfólk ekki gert. Við erum eingöngu að tala um að bæta innheimtu þegar álagðra gjalda og skatta. Ef gerð væri gangskör að því fengju menn nóg af peningum í ríkiskassann til að þurfa ekki að vera að skerða þennan hóp sem svo veikt stendur með þessu 65 aura frumvarpi. Það er skömm að því. Ég held að ég hafi eiginlega sagt það í 1. umr. að menn hefðu kannski valið 65 aurana af því að menn yrðu svo lengi að segja 65 aurar á móti krónu. En það má alveg eins segja tveir þriðju á móti krónu, það er þjált og það segir nákvæmlega sömu söguna.

Það eru heldur engin fyrirheit í þessu um hvað verði svo gert þegar 65 aura frumvarpið hefur verið samþykkt og er orðið að lögum. Hvað bíður þá? Samkvæmt þeirri 8 milljarða kr. skerðingu sem við vorum að tala um áðan geta öryrkjar þessa lands ekki verið fullir bjartsýni, a.m.k. ekki um hvernig þeim reiði af næstu fjögur ár. Svo virðist, eins og hefur stundum verið sagt áður úr þessum ræðustól, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli að láta þá sem veikast standa og minnst hafa bíða enn um hríð eftir réttlæti, a.m.k. næstu fjögur ár. Það er nokkuð klárt. Og þá segir maður: Hvað á svo að breytast að þessum fjórum árum liðnum? Opnast þá gullæð á Íslandi til að hægt sé að leysa hvers manns vanda? Eða verður það kannski boðað eftir sirka 20 mánuði þegar við nálgumst kosningar? Verða þá dregnar upp úr hatti sömu kanínurnar og búið er að troða ofan í hattinn núna? Verða þær kannski teknar upp og einhverjar nýjar með til að slá ryki í augu fólks rétt fyrir næstu kosningar? Einhvern veginn hefur maður grun um það.

En þetta mál er verulega slæmt. Það er rétt hugsanlegt að það fái stuðning minn vegna þess að það fer hænufet í að laga stöðu þessa hóps. Það er í sjálfu sér ekki hægt að setja sig upp á móti því að staða þessa hóps sé bætt um sem nemur hænufeti en það er bara svo himinhrópandi ósanngjarnt að nú eigi „bara“ að skerða þennan hóp um 65 aura af hverri krónu en ekki krónu af hverri krónu. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti, held ég að verði að segjast hér.

Fyrst menn neyddust til að taka upp fjárlög á síðustu metrunum í síðustu fjárlagaumræðu og núna fjármálaáætlun, á síðustu klukkutímum þingsins liggur mér við að segja, held ég að ef menn hefðu leitað hefðu þeir fundið aðra hópa í samfélaginu sem væru e.t.v. í betri stöðu til að taka á sig byrðar af þessari stærðargráðu. En þessi hópur virðist bara liggja svo vel við höggi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að menn leita ekki lengra. Menn sjá að þarna er hægt að skerða hóp sem fær ekki rönd við reist um upphæð sem „nægir“ til að hægt sé að troða í gegn fjármálaáætlun á síðustu klukkutímum þingsins og menn gera það. Er það stórmannlegt? Nei. Skynsamlegt? Heldur ekki. Er eitthvert réttlæti í þessu? Ekki arða.

Þess vegna, herra forseti, held ég að mönnum væri sæmra að taka málið aftur til nefndar á milli umræðna og koma til baka með að lágmarki tillögu um að króna á móti krónu breyttist í hálfa krónu á móti krónu, þó ekki væri nema það. Hvað kostar það? 1 milljarð, myndi ég halda fljótt á litið. Það er hægt að leiðrétta mig ef það er rangt, en ég hygg að það sé ekki hærri upphæð. Þá væri kannski hægt að orða það þannig að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri að rétta þessum hópi sem svo illa stendur vott af sáttarhönd. Þá væri kannski hægt að segja að ríkisstjórnin væri að koma til móts við þennan hóp og með góðum vilja væri hægt að segja að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tryggði alltént að þessir veikustu aðilar sem minnst hafa þyrftu ekki að bíða lengur en brýnasta þörf er á eftir réttlæti.

En ég er ekki bjartsýnn á þetta.