149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

endurskoðendur og endurskoðun.

312. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um endurskoðendur og endurskoðun. Þetta er þingskjal nr. 1827, mál 312.

Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um endurskoðendur taki gildi þar sem innleidd verði í íslenskan rétt annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56, um breytingu á tilskipun 43/2006, um lögbundna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila, og hins vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 537/2014, um endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum, eins og gerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn.

Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum og fer Fjármálaeftirlitið með slíkt eftirlit, samanber m.a. 33. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt gildandi lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008, hefur sjálfstæð sjórnsýslunefnd, endurskoðendaráð, eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laganna. Á grundvelli laganna skipar ráðherra fimm menn í endurskoðendaráð; tvo samkvæmt tilnefningu Félags löggiltra endurskoðenda, einn samkvæmt tilnefningu Viðskiptaráðs Íslands og tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Hlutverk og skipan endurskoðendaráðs er í samræmi við tilskipun 2006/43/EB áður en henni var breytt með tilskipun 2014/56/ESB sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu. Með nýju tilskipuninni verður m.a. sú breyting að endurskoðendur með virk réttindi mega ekki lengur vera stjórnendur eftirlitsaðila eða koma að ákvörðunum sem lúta að eftirliti með endurskoðendum og endurskoðendafyrirtækjum. Þar sem tveir endurskoðendur sitja í endurskoðendaráði getur það ekki sinnt eftirlitshlutverkinu að óbreyttu. Hið sama á við um eftirlit með aðilum sem stunda endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum, samanber IX. kafla frumvarpsins. Vegna þessa er farin sú leið í frumvarpinu að fela Fjármálaeftirlitinu hlutverkið.

Fjármálaeftirlitið kom hins vegar á framfæri alvarlegum athugasemdum um það að stofnuninni væri falið slíkt eftirlit með endurskoðendum. Álag á stofnunina væri nú þegar mjög mikið vegna fyrirhugaðs samruna hennar við Seðlabanka Íslands og vegna innleiðingar á tilskipun 2014/59/ESB (BRRD) og stofnunar sérstaks stjórnvalds, skilavalds, innan Fjármálaeftirlitsins í tengslum við hana. Þá fælust engin samlegðaráhrif í því að stofnunin tæki að sér eftirlitsverkefni samkvæmt frumvarpinu heldur væri um að ræða grundvallarbreytingu á starfsemi hennar sem stæði fjarri kjarnastarfseminni og hefði í för með sér hættu á hagsmunaárekstrum. Meginmarkmið Fjármálaeftirlitsins sneri að heilbrigði fjármálakerfisins og fjármálastöðugleika og við það bættust markmið um verðstöðugleika og stjórn peningamála o.fl. eftir sameiningu við Seðlabankann, verði af þeirri sameiningu. Eftirlit með endurskoðendum tæki til atvinnustarfsemi almennt en ekki fjármálakerfisins eingöngu.

Nefndin leitaði viðbragða ráðuneytisins við þessum athugasemdum Fjármálaeftirlitsins og fékk minnisblað þar sem listaðir voru upp fjórir kostir hvernig unnt væri að sinna eftirliti með starfsemi endurskoðenda og endurskoðendafyrirtækja. Tillögurnar voru fjórar eins og áður segir. Í fyrsta lagi að eftirlitið yrði hjá Fjármálaeftirlitinu eins og lagt er til í frumvarpinu, í öðru lagi að eftirlitið yrði hjá ríkisskattstjóra, í þriðja lagi yrði það hjá sjálfstæðri stjórnsýslunefnd á borð við endurskoðendaráð og í fjórða lagi að eftirlit yrði hjá sérstakri stofnun sem sett yrði á laggirnar og hefði með höndum öll verkefni ráðuneytisins á viðskiptasviði, þar með talið eftirlit með endurskoðendum. Í ljósi þeirra aðstæðna sem upp væru komnar væri þriðji kosturinn talinn vænlegastur, þ.e. hjá sjálfstæðri eftirlitsstjórnsýslunefnd.

Nefndin leitaði eftir áliti Félags löggiltra endurskoðenda og endurskoðendaráðs á þessum kostum sem ráðuneytið benti á. Í svari endurskoðendaráðs kom fram að ráðið teldi æskilegast að eftirliti með endurskoðendum væri komið fyrir hjá ríkisstofnun sem hefði fjármagn og burði til að sinna verkefninu með fullnægjandi hætti. Ef ekki væri mögulegt að koma eftirlitinu þannig fyrir nú lagði ráðið áherslu á að það yrði ekki látið koma í veg fyrir innleiðingu á tilskipun 56/2014 og reglugerð nr. 537 frá sama ári heldur yrði fundin önnur lausn. Af þeim kostum sem nefndir eru í minnisblaði ráðuneytisins væri raunhæfasta lausnin að fela sjálfstæðri stjórnsýslunefnd eftirlitið. Endurskoðendaráð benti á að ekki þyrfti að gera mjög veigamiklar breytingar á skipan þess en í ráðinu sætu nú þegar tveir endurskoðendur.

Í svari Félags löggiltra endurskoðenda við fyrirspurn nefndarinnar kom fram að í ljósi þeirrar ákvörðunar að stefna að sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans virtist liggja fyrir að eftirlitinu yrði ekki komið fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu. Líta þyrfti á niðurstöðu ráðuneytisins um að vænlegast væri að sjálfstæð stjórnsýslunefnd færi með eftirlitið sem algera bráðabirgðalausn. Afstaða félagsins væri sú að eftirlitinu væri best komið fyrir hjá sérstakri eftirlitsstofnun, samanber fjórða kostinn sem nefndur er í minnisblaði ráðuneytisins. Legði félagið því til að skýrt yrði að eftirlitinu yrði komið fyrir hjá sjálfstæðri stjórnsýslunefnd til bráðabirgða og að skipaður yrði vinnuhópur á vegum hins opinbera sem vinna skyldi að varanlegri lausn sem fælist í því að eftirlitið yrði hjá sérstakri eftirlitsstofnun. Félagið væri tilbúið til að taka þátt í þeirri vinnu.

Það skal tekið fram að meiri hlutinn hefur skilning á þessum sjónarmiðum Fjármálaeftirlitsins um að óheppilegt sé að fela stofnuninni nýtt og viðamikið hlutverk sem ekki samrýmist öðrum verkefnum sem hún hefur þegar með höndum. Þá telur meiri hlutinn ljóst, að undangengnu því samráði sem hefur verið lýst, að eini raunhæfi kosturinn, sem ekki felur í sér frestun á innleiðingu þeirra gerða sem ætlunin er að innleiða með frumvarpinu, sé að fela endurskoðendaráði eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum samkvæmt frumvarpinu sem og eftirlit með endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Í þessu skyni leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingar á frumvarpinu eins og kemur fram í nefndarálitinu.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að það fyrirkomulag sem hér er lagt til er bráðabirgðaúrræði þar til varanlegt úrræði fyrir framkvæmd eftirlits með endurskoðun og endurskoðendum verður sett á laggirnar. Meiri hlutinn tekur undir tillögu Félags löggiltra endurskoðenda um að settur verði á fót vinnuhópur sem leggi drög að slíkri lausn. Við þá vinnu verði tekið mið af fjórða valkostinum sem talinn var upp í minnisblaði ráðuneytisins um mögulega framkvæmd eftirlitsins og sneri að stofnun nýrrar stofnunar sem öll verkefni ráðuneytisins á viðskiptasviði heyrðu undir, þ.m.t. eftirlit með endurskoðendum.

Frú forseti. Í nefndarálitinu er síðan gerð grein fyrir öðrum þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til og ég sé ekki ástæðu til að fara yfir frekar hér, en vísa í nefndarálitið. Auk þess eru nokkrar aðrar tæknilegar breytingartillögur á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit þetta rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.