149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

endurskoðendur og endurskoðun.

312. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru, hygg ég, ekkert voðalega margar starfsgreinar, fyrir utan þær sem eru í heilbrigðiskerfinu, sem leggja jafn ríka áherslu á endurmenntun og endurskoðendur. Endurmenntun hjá endurskoðendum felst annars vegar í námskeiðahaldi hjá viðurkenndum háskólastofnunum en ekki síður í ráðstefnum og málþingum um endurskoðun, nýjar hugmyndir og fyrst og fremst nýjar reglur sem er í rauninni næstum því stöðugt verið að setja, bæði hér og í öðrum löndum, og menn eru að bera saman bækur sínar á milli landa. Mig rekur ekki minni til þessarar umsagnar sem hv. þingmaður er að vitna í. En ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að það er auðvitað eðlilegt að gera ákveðnar kröfur um að endurskoðendur sem njóta löggildingar og gefa sig út fyrir að vera löggiltir endurskoðendur sinni endurmenntun með ákveðnum hætti og að það sé fylgst með því. Mér finnst það eðlilegt að þegar menn fara fram á að hljóta starfsheitið löggiltur endurskoðandi — löggiltur — séu gerðar ákveðnar kröfur. Þær kröfur breytast eftir því sem t.d. reglur og lög taka breytingum.