149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

endurskoðendur og endurskoðun.

312. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst það sem mér láðist að svara hv. þingmanni um áðan varðandi þann kostnað sem til fellur við eftirlitið. Ég hygg að við getum verið sammála um að það sé eðlilegt að eftirlitsskyldur aðili, í þessu tilfelli endurskoðendur, greiði fyrir þann kostnað sem til fellur. Það á auðvitað að vera meginreglan, alveg eins og bankar eiga að greiða fyrir þann kostnað sem fellur til vegna eftirlits með þeirra starfsemi. Þannig held ég að það sé meginreglan að það sé ekki verið að setja íþyngjandi gjöld á almenning eða aðra sem eru í rauninni ótengdir málinu. Ég vona að við hv. þingmaður Birgir Þórarinsson getum við verið sammála um að eftirlitsskyldir aðilar eigi að standa undir þeim kostnaði sem til fellur.

Vandinn sem blasti við nefndinni var sá að það gekk ekki að koma málum þannig fyrir að Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með starfsemi endurskoðendafyrirtækja og endurskoðendum. Ég hygg að það hafi blasað við öllum að það átti ekki heima þar. Það voru mjög miklar umræður um það í nefndinni til hvaða ráða væri hægt að grípa. Eitt af því sem ég sjálfur var mest hrifinn af var að leita til ríkisskattstjóra og fela honum eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verkefnið. Niðurstaðan var hins vegar sú að fara í endurskoðendaráð og fela þeim það. En ég undirstrika að hér er um bráðabirgðaúrræði að ræða til að tryggja að við getum hrint þeirri reglugerð í framkvæmd sem um er að ræða og að endurskoðendur sjálfir leggja ofuráherslu á að sé hrint í framkvæmd þannig að þeir starfi í sama umhverfi hér á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir endurskoðendur (Forseti hringir.) að það verði gert.

Ég ítreka: Við munum á komandi vetri, (Forseti hringir.) frú forseti, ef þú gefur mér smá svigrúm, alveg örugglega þurfa að taka það upp hver skuli til frambúðar hafa eftirlit með (Forseti hringir.) endurskoðendum.