149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[13:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hér er lagt til að við nýtum það tækifæri sem nú gefst til að jafna stöðu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds með því að draga úr þeim mikla launamun sem er á kjörum alþingismanna annars vegar og ráðherra hins vegar. Með þessari tillögu er enn þá talsverður munur á launum alþingismanna og ráðherra, enda er gert ráð fyrir að taka þetta í hóflegum skrefum. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að laun ráðherra verði 30% umfram laun þingmanna, eða þingfararkaup, þ.e. tvöföldu því hámarksálagi sem þingmenn geta haft á þingfararkaupið, en að forsætisráðherra sé með 45% álag, þ.e. þrefalt hámarksálag sem þingmenn geta haft á þingfararkaup.

Með þessu er vonandi hægt ekki aðeins að jafna stöðu löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins heldur einnig að draga úr líkunum á því að einhverjir flokkar gefi eftir stefnu sína, grundvallarsjónarmið, kosningaloforð, til þess eins að ná í fáeina ráðherrastóla. Ég lít svo á að verði þetta samþykkt sé eðlilegt í framhaldinu að skoða reglur um þingfararkaup, m.a. með tilliti til álagsgreiðslna til formanna flokka.

Þetta er ekki stórt skref en þó til þess fallið að ná því markmiði sem m.a. er lýst í heiti stjórnarsáttmálans um að jafna stöðu löggjafans og framkvæmdarvaldsins.