149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[16:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er stigið eitt örlítið skref. Mig langar að minna á það sem við urðum vitni að í gær þegar unga fólkið okkar var með þingfund í þingsalnum. Hér kom ungur drengur fram og var að tala um nákvæmlega það sem við erum að fjalla um hér í dag, 65 aura á móti krónu, og sagði að félagsmálaráðherra væri í rauninni búinn að éta pítsusneiðina en skildi skorpuna eftir. Enn og aftur erum við að glíma við krónu á móti krónu skerðingu. Hér er í rauninni haldið áfram að hamla þessum ákveðna hópi hvatningar út á vinnumarkaðinn.

Þetta er skárra en ekkert, illskárra en ekkert, þannig að auðvitað segjum við já, en þetta er búið að vera við lýði síðan með reglugerð haustið 2008, eini þjóðfélagshópurinn, sennilega í heiminum, sem býr við slíka skerðingu. Þessi skerðing var afnumin af eldri borgurum 1. janúar 2017 og ég vona (Forseti hringir.) að það sé a.m.k. markmiðið að við þurfum ekki að horfa upp á þetta miklu lengur.