149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Makríllinn gengur líka inn í okkar lögsögu og það er partur af deiluefninu sem er í gangi. Það tók hann lengri tíma að ganga inn í lögsöguna og upp að ströndum og þess vegna er veiðireynslan mismikil. Á þeim grundvelli stendur stóra deilan milli hagsmunaaðila í útgerðinni.

Jú, við getum víst tekið ákvarðanir um okkar sameiginlegu auðlindir, að taka þær til ríkisvaldsins. Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var að vinna að á sínum tíma og kom með mörg álit um að það stæðist stjórnarskrána ef það væri gert hægt og rólega og svo boðið út, það væru 5% á ári. Það er sú leið sem var talað um þar. Aðrir hafa talað um 3% á ári en yfir einhvern árafjölda, að þessi auðlind og rétturinn til nýtingar hennar sé boðinn út.

Jú, víst hefur þetta mikið verið rætt í samfélaginu. Er hv. þingmaður ekki sammála því að sú leið myndi standast stjórnarskrá, sú leið sem Samfylkingin og Vinstri græn voru að vinna að á sínum tíma varðandi það að aflaheimildirnar yrðu innkallaðar um 5% á ári og boðnar hæstbjóðendum?