149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[12:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að það teljist ekki útúrsnúningar en mig langar eiginlega til að snúa þessu við og spyrja: Ætli allir þingmenn Sjálfstæðisflokks séu sammála mér? Ég talaði eins skýrt hér og einn maður getur talað, að ég taldi, í ræðu minni og það er bjargföst sannfæring mín. Ég veit alveg að það er ekki endilega heppilegt að ég sem forseti sé að blanda mér í umræðurnar og kveikja í þeim á kannski næstsíðasta degi þingsins en það er bara þannig, herra forseti, og ég vona að mér fyrirgefist, að ég er búinn að hrærast í þessari sjávarútvegsumræðu í ein 40 ár. Ég skrifaði einu sinni bók um sjávarútvegsmál, ég sat á löngum árabilum í sjávarútvegsnefnd og ég hef verið sem ráðherra með þessi mál í mínum höndum í nokkur skipti þannig að ég er upptekinn af þessari sögu og af þeim grundvallaratriðum sem við hv. þingmaður höfum aðeins verið að ræða hér.

Ég tel að við höfum þokast í rétta átt á undanförnum árum með hlutum eins og þeim að nú eru 5,3% af öllum tegundum í kvóta tekin til hliðar og sett í ýmsar góðar ráðstafanir. Við erum með strandveiðar. Við höfum reynt að passa upp á að ákveðið jafnvægi væri milli þátta, reynt að viðhalda fjölbreytni í greininni. Við erum með auðlindagjöld. Þetta eru allt skref í rétta átt en auðvitað þekki ég vel til grundvallardeilunnar um sjálft fyrirkomulagið. Það er eins og það er.

Ég er sammála hv. þingmanni að sjálfsögðu um að við megum aldrei gleyma mikilvægi þess að starfsumhverfið í greininni sé gott. Þetta er nú einu sinni ein okkar allra mikilvægasta grein, sú grein sem byggði Ísland upp sem velferðarsamfélag. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki. Löggjöfin þarf að vera skýr, helst sæmilegur friður um hana og að sjálfsögðu er mikilvægt að kerfið sé hvetjandi til fjárfestinga og nýsköpunar. Upp á þetta verður allt saman að passa og þó að það sé í tísku hjá sumum að tala illa um útgerðina og þess vegna stórútgerðirnar eigum við náttúrlega (Forseti hringir.) mikið undir því að öll þessi fyrirtæki, stór og smá, gangi vel.