149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[12:37]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fagna afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu allra þingmanna Suðurkjördæmis úr hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er ekki þörf á að fjölyrða um stöðu fjármála í Reykjanesbæ og fleiri sveitarfélögum á Suðurnesjum en rétt að minna á að tekist hefur að bregðast við með verulegum árangri af hálfu sveitarfélaganna undanfarið. Ýmsar kárínur hafa gengið yfir Suðurnes. Þær verða heldur ekki raktar hér og nú, en ítrekað að miklar vonir eru bundnar við vinnu þess starfshóps sem þingsályktunartillagan tekur til og þá verð ég að segja, herra forseti, að samstaða allra þingmanna sem eru á þessari þingsályktunartillögu er staðfesting þess að málið er mikilvægt og þarfnast ekki aðeins yfirlegu heldur líka þeirra lausna sem yfirlegan mun birta okkur þegar þar að kemur. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en endurtek að ég er mjög ánægður með að það tókst að afgreiða tillöguna. Ég er nokkuð viss um að hefði hana borið að með einhverjum öðrum hætti hefði hún einnig öðlast stuðning margra þingmanna.