149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:30]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum að tala um ferska kjötið, mál sem er búið að velkjast í áraraðir í íslensku stjórnkerfi. Hér hafa flokkar verið í ríkisstjórn og líka í stjórnarandstöðu sem hafa verið að móast við eðlilegum kröfum þess efnis að við förum eftir alþjóðaskuldbindingum en ekki síður því að við þurfum auðvitað að uppfylla það sem Hæstiréttur segir og fara eftir því sem hann kveður upp úr með. Hluti af því er þetta mál sem tengist ferska kjötinu. Eðlilega hafa komið upp ákveðin varúðarsjónarmið sem tekið hefur verið tillit til. Við samþykktum fyrr í dag aðgerðaáætlun. Ég sit í atvinnuveganefnd og vil meina að hún hafi unnið þar gott starf. Allir eru meðvitaðir um að við þurfum að gæta að neytendum og matvælaöryggi. Við þurfum að huga að bændum, búfjárstofnum og auðvitað lýðheilsu okkar Íslendinga.

Í frumvarpinu er ekki ógn gagnvart þeim þáttum sem ég talaði um. Þetta er ekki ógn ef rétt er að málum staðið og eins og Alþingi útbjó það núna vil ég meina að þetta sé rétt skref og þótt fyrr hefði verið. Það sem ég kem hins vegar hingað upp með er að mér finnst miður að sjá hvernig vinnubrögð — þetta mál tengist því hvernig við erum búin að vera í þinglokum á síðustu dögum og ég fagna því sérstaklega að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafi dregið það sérstaklega fram í andsvari áðan að gildistakan er ekki háð einhverjum skilyrðum. Mér hefur þótt miður að upplifa það — ég gerði þó ekki neitt veður úr því af því að ég tel mikilvægt að forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafi ákveðið svigrúm til framgangs, en ég setti þetta mál, ferska kjötið, sem eitt af þeim málum sem ég vildi að nytu framgangs í þinginu og að ef því yrði breytt yrði haft samráð við fleiri en Miðflokkinn.

Af því að að vissu leyti er ákveðinn yfirgangur og þrjóska, við getum líka sagt staðfesta, til staðar þar, var eftirgjöfin af hálfu ríkisstjórnar fullkomin gagnvart Miðflokknum. Ég veit að Miðflokksmenn kætast ef ég segi að Miðflokksmenn hafi tekið ríkisstjórnina að vissu leyti á ippon. Þó að ég sé bara fjári foxill, kannski ekki í fyrsta og ekki í annað sinn, er það þannig að þetta mál mun taka gildi og verða að lögum 1. janúar 2020, óháð því hvaða spil Miðflokkurinn mun reyna að draga upp á lokametrunum.

Það sem mér finnst líka skipta máli varðandi meðferð málsins alls er að í þessu máli erum við að gera kröfu til okkar sjálfra varðandi lýðheilsu, búfjárstofna, bændur og neytendur, eitthvað sem ég hefði svo gjarnan viljað sjá jafnvel í fiskeldinu. Þó að mörg mjög mikilvæg og jákvæð skref hafi verið tekin fram á við hvað varðar auknar kröfur um náttúruvernd og umhverfisvernd varðandi fiskeldið hefði ég viljað sjá það sama gert þar eins og er verið að gera hér. Við erum að gera mjög strangar kröfur til okkar sjálfra, okkar Íslendinga, hvernig við hlúum einmitt að þessum þáttum, búfjárstofnum og bændum en ekki síður neytendum, hvernig við tryggjum líka neytendum öryggi þeirra þegar þeir bæði kaupa sína vöru og hafa líka aðgang og val. Það verður ekki tekið af neytendum og við erum að tryggja það hér líka með því að uppfylla skilyrði EES-samningsins sem við undirgengumst á sínum tíma, mjög farsælt framfaraskref sem við þurfum auðvitað að fylgja eftir. Það er ekki eins og sumir vilja sem hér eru inni, þeir vilja taka ákveðin mál og setja þau í herkví til þess eins að veikja undirstöður þess mikilvæga samnings.

Mér finnst miður hvernig, eins og ég segi, á síðustu metrum þinglokasamninga er verið að nota mál. Það var verið að reyna ákveðinn hælkrók á ríkisstjórnina og alla aðra flokka í þinginu varðandi kynrænt sjálfræði. Á það var sem betur fer ekki hlustað, en það segir mjög mikið þegar verið er að nota svona mál til að knýja sitt fram. Mér finnst það ekki í anda samtals, samræðu eða málefnalegra stjórnmála.

Ég vil einnig undirstrika að ég tel skipta máli að Alþingi Íslendinga fari eftir því sem Hæstiréttur segir, fari eftir því sem Mannréttindadómstóll Evrópu segir þótt hann sé ekki að tala í þessu máli, en í öðrum málum. Mér finnst vont þegar tónar sem hér eru slegnir, hvort sem er af hálfu ríkisstjórnar eða tiltekinna flokka í þinginu, eru þannig að það megi bara fara eftir hentugleikum og hentisemi hverju sinni, pólitískri skoðun hverju sinni, hvort framfylgja eigi niðurstöðum Hæstaréttar. Þess vegna tek ég undir með ríkisstjórninni, þetta er rétt skref. Eðlilega þurfti að fara yfir atriði og ábendingar sem við þurftum að fara vel yfir. Það var gert og að hluta til erum við búin að afgreiða þann þátt. Mér finnst vont að sjá að einn flokkur umfram annan geti fengið breytingar á svona málum með yfirgangi sínum og óbilgirni eins og var í þessu máli. Hægt er að kalla það staðfestu, en í svona málum finnst mér það vera óbilgirni og yfirgangur.

Þetta er eitthvað sem ég vona að við, allir stjórnmálaflokkar, tökum fyrir á næsta þingi. Ég tel að kominn sé tími til að við förum gaumgæfilega yfir allt sem heitir málþófstæki. Við þurfum að koma betra skikki og brag á starfsemi þingsins.