149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja að ég er pínulítið hissa á að sjá hv. þm. Bergþór Ólason á breytingartillögu um þetta mál. Minni mitt er gloppótt en ég man ekki eftir hv. þingmanni á mörgum fundum hv. atvinnuveganefndar um málið. Það skýrir kannski það sem mér finnst vera misskilningur um ýmislegt, svo ég tali pent, sumt sem ég held að eigi sér einfaldlega ekki alveg stoð í raunveruleikanum. Hv. þingmenn Miðflokksins hafa mikið talað um fyrirvara í síðari umr. um þriðja orkupakkann og sagt heilmikla brandara um leitina að fyrirvörum. Hér talaði hv. þm. Bergþór Ólason um að aðrir tveir kollegar hans í Miðflokknum hefðu skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvar þeir fyrirvarar eru því að þá er ekki að finna í nefndarálitinu. Og það er kannski ókunnugleiki hv. þingmanns gagnvart málinu sem veldur því að hann ruglar líka saman þeim þingmönnum sem skrifa undir nefndarálitið. Það voru hv. þingmenn Ólafur Ísleifsson og Jón Þór Þorvaldsson sem rituðu undir það og ekki með neinum fyrirvara. Það að leggja út frá einhverjum meintum fyrirvara eru einfaldlega rangfærslur eða talað af ókunnugleika.

Þegar talið berst að kunnugleika eða ókunnugleika kannast ég mjög við þann texta sem settur er fram í breytingartillögu hv. þingmanns. Hann er ansi líkur texta sem framkvæmdastjóri eins fiskeldisfyrirtækis sendi á nefndarmenn hv. atvinnuveganefndar í morgun. Er sá texti uppruni þessarar breytingartillögu?